135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[11:04]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með svör á reiðum höndum um hlutfall landvarða og starfanna, hversu mörg eru heilsársstörf. Eðli málsins samkvæmt er mikil starfsemi og margir sem starfa í landvörslu yfir sumarmánuðina. Ég skal bara kanna það mál og svara hv. þingmanni við betra tækifæri.

Framkvæmdastjóri stjórnar þjóðgarðsins starfar með stjórninni. Það er þannig í Vatnajökulsþjóðgarði að stjórnin fundar til skiptis og reglulega á hverju einasta rekstrarsvæði þjóðgarðsins þannig að það er fundað á Skriðuklaustri, það er fundað á Höfn og það er fundað við Mývatn o.s.frv. Framkvæmdastjórinn fer þangað sem stjórnin biður hann um að fara og sinnir þeim erindum sem stjórnin vill að hann vinni. Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þingmanni að einstaklingurinn sem var ráðinn til starfans er búsettur í Reykjavík, það er rétt, (Gripið fram í.) en það skiptir ekki máli upp á það starf sem verið er að vinna fyrir stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég lít svo á að framkvæmdastjórinn, óháð búsetu hans, geti starfað hvar sem er á landinu. (Gripið fram í.) Ég held að skrifstofuna sé ekki búið að setja niður, það er reyndar verið að vinna í því, það er rétt hjá hv. þingmanni. (Forseti hringir.) Aðalmálið er að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs heldur utan um þetta og framkvæmdastjórinn fer þangað sem hann á að fara.