135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

538. mál
[11:29]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ólíkum lagabálkum á sviði verðbréfaviðskipta.

Í I. kafla frumvarpsins er að finna tillögur til breytinga á lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Lög þessi öðluðust gildi 1. nóvember sl. Með lögunum voru m.a. innleidd í íslenskan rétt ákvæði svokallaðra MiFID- og gagnsæistilskipana. Breytingarnar sem felast í I. kafla frumvarpsins snúa allar að ákvæðum XIII. kafla laganna, um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja. Lagt er til að ákvæðum XIII. kafla, auk þriggja ákvæða XIV. kafla um eftirlit með opinberri birtingu upplýsinga og miðlæga varðveislu, verði breytt til samræmis við ákvæði gagnsæistilskipunarinnar og VII.–IX. kafla laganna, sem byggja á gagnsæistilskipuninni. Heppilegt er að sömu reglur gildi um birtingu upplýsinga samkvæmt fyrrgreindum köflum laganna, enda gerir tilskipunin ekki greinarmun á verðmótandi upplýsingum, innherjaupplýsingum og öðrum reglulegum upplýsingum frá útgefanda að þessu leyti. Frumvarpið felur því í sér að útgefendur verðbréfa birti framvegis upplýsingar samkvæmt XIII. kafla laganna opinberlega, án milligöngu skipulegra verðbréfamarkaða eða markaðstorga fjármálagerninga, og sendi upplýsingarnar jafnframt til Fjármálaeftirlitsins, sem varðveitir þær í miðlægu geymslukerfi, sbr. 136. gr. laganna.

Í II. kafla frumvarpsins er að finna tillögu til breytinga á 30. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða. Ákvæðið vísar til skilgreiningar laga um verðbréfaviðskipti á hugtakinu skipulegur verðbréfamarkaður. Eftir gildistöku nýrra laga um verðbréfaviðskipti og kauphallir síðastliðið haust er skilgreining þessa hugtaks þrengri en áður. Af þessu leiðir að verðbréfasjóðum er samkvæmt gildandi lögum ekki heimilt að eiga viðskipti á mörkuðum utan Evrópska efnahagssvæðisins, en það stangast á við verðbréfasjóðatilskipun Evrópusambandsins, nr. 85/611, með áorðnum breytingum. Ákvæði tilskipunarinnar voru tekin upp í íslenskan rétt með lögum nr. 30/2003. Ekki stóð til að takmarka fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða með umræddum hætti við setningu nýrrar löggjafar á sviði verðbréfaviðskipta á síðasta löggjafarþingi. Af þeim sökum er í frumvarpi þessu lagt til að fjárfestingarheimildirnar verði sambærilegar því sem var fyrir 1. nóvember 2007 þegar nýja löggjöfin öðlaðist gildi.

Í III. kafla frumvarpsins er lagt til að 10. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, verði breytt á þá vegu að kauphallir öðlist rétt til þess að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð. Samkvæmt gildandi lögum hafa Seðlabanki Íslands, Lánasýsla ríkisins, viðskiptabankar og sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir rétt til milligöngu um slíka eignarskráningu. Breyting sú er í frumvarpinu felst er í samræmi við þróun í norrænum rétti.

Í IV. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 110/2008, um kauphallir. Annars vegar er lagt til að tekið verði fram í 14. gr. laganna að kauphöll verði heimilt að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð. Hins vegar að mælt verði fyrir um að skýrsla stjórnar fylgi endurskoðuðum ársreikningi kauphallar til Fjármálaeftirlitsins skv. 16. gr. í stað ársskýrslu. Síðarnefnd breytingartillaga er til komin eftir ábendingu embættis ríkisskattstjóra og er í samræmi við ákvæði laga nr. 3/2006, um ársreikninga.

Hæstv. forseti. Frumvarp þetta er til komið í kjölfar ábendinga markaðsaðila. Því er um að ræða mál, sem mikilvægt er að fram nái að ganga. Ég vænti þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. viðskiptanefndar.