135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

541. mál
[11:41]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

Lagafrumvarp þetta, sem samið er í viðskiptaráðuneytinu, er lagt fram til að taka af tvímæli um fullnægjandi lagastoð varðandi hæfniskröfur við löggildingu Neytendastofu á rafverktökum, m.a. í kjölfar umfjöllunar umboðsmanns Alþingis um mál á sviði rafmagnsöryggis. Er byggt á ákvæðum reglugerðar nr. 285/1998 um breytingu á reglugerð nr. 264 31. desember 1971 um raforkuvirki, með áorðnum breytingum, nánar tiltekið ákvæðum 1.4.7–9.

Í síðastgreindum ákvæðum er að finna nánar tiltekin skilyrði fyrir A-löggildingu, sem er löggilding til rafvirkjunarstarfa við háspennuvirki, B-löggildingu, sem er löggilding til rafvirkjunarstarfa við lágspennuvirki, CA-löggildingu, sem er takmörkuð löggilding til rafvirkjunarstarfa við háspennuvirki, og CB-löggildingu, sem er takmörkuð löggilding til rafvirkjunarstarfa við lágspennuvirki. Er þar getið um kröfur til menntunar og starfsreynslu. Taka þyrfti þá skýrt fram með breytingu á frumvarpinu að í 4. tölulið viðkomandi greina yrði fjallað um sveinsbréf í rafvirkjun og auk þess próf í meistaranámi í rafvirkjun (sterkstraumssviði) frá viðurkenndum skóla eða jafngilda menntun að mati menntamálaráðuneytisins. Getur það opnað rafveituvirkjum leið til löggildingar enda hafi þeir áður aflað sér nauðsynlegrar viðbótarmenntunar. Að öðru leyti vísa ég í ákvæði frumvarpsins.

Fjármálaráðuneytið telur að frumvarpið leiði ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að frumvarpið verði að lokinni þessari umræðu tekið til meðferðar í viðskiptanefnd.