135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

sala fasteigna, fyrirtækja og skipa.

540. mál
[11:43]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, sem er á þingskjali 841, 540. mál.

Upphafið að því að ákveðið var að endurskoða núgildandi lög er að ákvæði var í fyrri lögum um að endurskoða skyldi lögin fyrir 1. janúar 2008. Hæstv. dómsmálaráðherra skipaði vinnuhóp í maí 2007 sem gera átti tillögur að breytingu á lögunum. Hópurinn skilaði dómsmálaráðherra í lok síðasta árs niðurstöðum sínum í formi heildarfrumvarps til nýrra laga auk skýringa.

Þann 1. janúar á þessu ári fluttist forræði þessa mála, þ.e. er varða sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, yfir til viðskiptaráðuneytisins og varð það úr að ég skipaði nýjan starfshóp til að leggja lokadrög að heildarfrumvarpi til laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa í ljósi þess að tímafresturinn um endurskoðunarákvæðið var liðinn. Hópurinn lauk störfum um miðjan mars og skilaði heildarfrumvarpi til nýrra laga nokkuð áþekkum þeim sem fyrri starfshópur hafði skilað. Mun ég hér á eftir rekja helstu þætti þessa frumvarps.

Markmiðið með frumvarpinu er að gera viðskipti með fasteignir, fyrirtæki og skip trygg og örugg fyrir alla þá sem koma að slíkum viðskiptum. Að þau geti farið fram með greiðum og öruggum hætti fyrir jafnt kaupendur og seljendur. Fasteignaviðskipti eru oftar en ekki viðskipti með aleigu fólks og því er nauðsynlegt að löggjafinn marki skýra löggjöf í þessum efnum og er þetta frumvarp sérstaklega samið til að leggja áherslu á það. Þá er markmið þessa frumvarps jafnframt að tryggja þeim sem telja á sér brotið í fasteignaviðskiptum hraða málsmeðferð til þess að þeir geti fengið úrlausn sinna mála, en nánar verður einnig vikið að því hér á eftir.

Í frumvarpinu er það nýmæli að sett er svokallað markmiðsákvæði í 1. gr. frumvarpsins til að undirstrika markmið laganna en með því er átt við að þeir sem hafa fengið einkarétt hjá hinu opinbera til að eiga milligöngu um viðskipti milli kaupenda og seljenda gæti hagsmuna þeirra beggja. Með þessu er það fest í lög að staða kaupenda og seljenda skuli lögð að jöfnu og hagsmuna þeirra beggja sé gætt. Er því skýrt að frumvarpinu er sérstaklega ætlað að tryggja neytendavernd.

Í þessu ljósi hefur það verið rætt og því hreyft af sumum að skoða þá leið sem farin er t.d. sums staðar á Norðurlöndunum að bæði kaupanda og seljanda sé skylt að hafa með sér lögmenn þegar fasteignaviðskiptin eiga sér stað en starfshópurinn leggur það ekki til og sú leið er ekki lögð til í þessu frumvarpi en það er sjálfsagt að nefndin ræði það í störfum sínum eins og annað sem tengist frumvarpinu.

Það nýmæli er einnig í lögunum að skýrt er að fasteignasali megi ekki fela öðrum í meira mæli en lögin segja til um og reglugerðir settar samkvæmt þeim að vinna þau störf sem löggildingin nær til, sbr. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Tilefni þess að ákveðið er að leggja slíkt til í þessu frumvarpi er að svo virðist sem nokkuð óljóst hafi verið hversu mikið af skyldum fasteignasalans hann geti framselt öðrum sem starfa í hans þágu og hversu mikið af þeim verkum hann hafi ekki heimild til að framselja. Hér er þó ekki verið að koma í veg fyrir að fasteignasali geti látið aðra vinna einföld verk, sbr. 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins. Í þessari sömu grein er einnig tekið af skarið um að fasteignasali beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem þeir valda sem starfa í þágu fasteignasalans.

Töluvert hefur verið rætt um það á síðustu missirum hve umfangsmikil verktaka í fasteignasölu er orðin og hvað sé réttlætanlegt að hver löggiltur fasteignasali hafi marga verktaka á sínum snærum til að annast ýmis störf á vegum fasteignasölunnar. Hefur að sjálfsögðu verið mikið um það rætt og deilt hvernig og hversu langt eigi að ganga til að setja þessu skorður og stemma stigu við þessari þróun og finna henni eðlilegan farveg. Ég held að hér sé lögð til nokkuð heppileg leið hvað þetta varðar. Það hefur verið óljóst og deilt um það hversu mikið af skyldum fasteignasalinn geti framselt. Hér er lagt til að ráðherra hafi reglugerðarheimild til að skilgreina það sérstaklega og hvernig þeim málum verði fyrir komið. Auðvitað stendur engum hugur til að banna fasteignasölum að ráða fólk til almennra starfa inni á fasteignasölum, það gefur augaleið. En það hefur borið á því og ýmsir hafa haldið því fram að fasteignasalar, einhverjir, hafi framselt of mikið af verkum sínum sem hinn löggilti fasteignasali ætti að hafa með að gera en það verður tekið á því í þessu lagafrumvarpi og þær deilur ættu að vera niður settar nái þetta frumvarp fram að ganga þar sem viðskiptaráðherra getur og mun setja reglugerðarheimild þar sem sérstaklega er til þess tekið hvaða störfum fasteignasalinn getur látið aðra sinna. Hér er um að ræða aleigu flestra, ævisparnað þorra Íslendinga, og þessi viðskipti skipta gríðarlega miklu máli og þess vegna ber hér að gæta ýtrustu neytendaverndar til að koma í veg fyrir að fólk lendi í tjóni út af einhverju sem þessu tengist: Þess vegna held ég að það sé líka töluvert framfaraskref sem hér er lagt til og ég nefndi áðan að það sé fest í lög að staða kaupenda og seljenda skuli lögð að jöfnu og hagsmuna beggja gætt til hins ýtrasta.

Hér er gerð er tillaga í IV. kafla frumvarpsins að lögfest verði sérstök kærunefnd um málefni fasteignasala. Það er líka mjög mikil réttar- og neytendabót nái þessi kærunefnd fram að ganga. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að gert er ráð fyrir að kaupendur og seljendur fasteigna eða viðskiptamenn fasteignasala geti borið undir kærunefndina ágreining um þóknun og skaðabótaskyldu og aflað álits hennar um ágreiningsefnið. Lagt er til að kærunefndin verði vistuð hjá Neytendastofu. Hér er um að ræða mjög mikilvægan þátt en nokkuð hefur verið um það rætt að leiðir þeirra sem telja sig hafa farið halloka vegna slíkra viðskipta séu langar og því er lagt til að sett verði á fót sérstök kærunefnd og með því megi stytta málshraðann verulega og þeir sem þurfi að leita leiða til að fá málum sínum sinnt eigi miklu greiðari leið en áður.

Í frumvarpinu er í d-lið 3. gr. tillaga um breytingar á fyrirkomulagi á menntun fasteignasala. Eins og fram kemur í skýringum með greininni er gert ráð fyrir því að reglur um menntun fasteignasala verði felldar að löggjöf um menntun á háskólastigi. Háskólar geta, ef frumvarpið nær fram að ganga, skipulagt nám fyrir fasteignasala en það skal þó vera 90 staðlaðar námseiningar og er viðskiptaráðherra heimilt að setja reglugerð til að mæla fyrir um framkvæmd og tilhögun þess náms. Með 90 einingum eða samkvæmt ETCS-einingum er átt við ígildi 45 eininga sem almennt hefur verið miðað við hér á landi í háskólanámi eða sem samsvarar um eins og hálfs árs háskólanámi eða þriggja anna. Því er ekki lagt til að lengd eða umfangi námsins verði breytt frá því sem núna er.

Ekki verður lengur skylduaðild að Félagi fasteignasala, nái frumvarpið fram að ganga. Fyrir því eru ástæður sem raktar eru nánar í skýringum með frumvarpinu en umboðsmaður Alþingis tók fyrir nokkru til athugunar að eigin frumkvæði skylduaðild að félaginu og hvort hún stæðist ákvæði stjórnarskrár Íslands um félagafrelsi, samanber niðurstöðu umboðsmanns Alþingis nr. 4225/2004. Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu þegar lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa voru tekin til meðferðar á Alþingi árið 2004 að vafi léki á því hvort þau verkefni Félags fasteignasala sem kveðið er á um í lögunum stæðust skilyrði sem 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar setti, þ.e. að skylduaðild væri nauðsynleg til að Félag fasteignasala gæti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna eins og fram kemur í athugasemdum með þessu frumvarpi. Umboðsmaður Alþingis vakti athygli dóms- og kirkjumálaráðherra á álitinu. Það var niðurstaða starfshópsins sem ég skipaði og sem hæstv. dómsmálaráðherra skipaði þar áður að ekki sé lagalegur grundvöllur fyrir því að skylda fasteignasala til þess að gerast aðilar að félaginu. Fyrir því sé ekki stjórnarskrárleg heimild.

Í þessu frumvarpi er einnig gert ráð fyrir því að eftirlitsgjald fasteignasala lækki úr 100.000 kr. í 80.000 kr. á ári en talsverðar fjárhæðir hafa safnast í sjóði eftirlitsnefndar fasteignasala. Er því einnig gert ráð fyrir því, eins og fram kemur í skýringum með 19. gr. frumvarpsins, að fasteignasalar greiði ekki eftirlitsgjald vegna áranna 2008 og 2009 og fái þannig til baka það eftirlitsgjald sem þeir hafa greitt umfram kostnað.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um að ræða mjög þýðingarmikið frumvarp sem muni stuðla að öruggari fasteignaviðskiptum og tryggja neytendur miklu betur en nú er í slíkum viðskiptum. Undanfarin ár hafa verið gerðir um 14.000–15.000 kaupsamningar um fasteignir hér á landi og ekki þarf að tíunda hversu mikilvægt það er að allt fari fram eftir skýrum reglum og ekki sé deilt um heimildir og fyrirkomulag á þessu sviði.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. viðskiptanefndar til umfjöllunar.