135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

sala fasteigna, fyrirtækja og skipa.

540. mál
[12:01]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Til að stytta mjög mál mitt, af því að hér er að hefjast umræða utan dagskrár, þakka ég hv. þingmanni fyrir mjög glöggar og gagnlegar ábendingar um hin ýmsu ákvæði frumvarpsins sem vert er að skoða vandlega í nefndinni. Hér er um að ræða mjög flókið mál sem eins og ég sagði tveir starfshópar á vegum tveggja ráðuneyta unnu að. Ég tel að hér hafi í grófum dráttum náðst mjög skynsamleg niðurstaða sem eigi að verða til þess að lokum að stórbæta neytendavernd kaupenda að húsnæði og bæta öll viðskipti með fasteignir á Íslandi og er hægt að læra mikið af reynslu síðustu ára í þeim efnum.

Að sjálfsögðu var deilt um stór mál eins og heimildir til verktöku og annað og við komumst að þeirri niðurstöðu að setja um það sérstakar og skýrar reglur í reglugerð á vegum ráðherra, gangi frumvarpið fram. Og svo hin ýmsu atriði sem varða kærunefnd og félagsaðild og fleira, eins og hv. þingmaður nefndi og kom með mjög fínar ábendingar um, sem allar er vert að skoða eins og um kærunefnd, Neytendastofu og fleira. Ég þakka honum fyrir það innlegg og efast ekki um að það verði skoðað af mikilli vandvirkni í viðskiptanefnd sem vonandi tekst að afgreiða málið fyrir vorið. Það er mjög mikilvægt að klára þetta stóra mál og eyða ýmiss konar óvissu sem er á fasteignasölumarkaði og bæta lagaumhverfið verulega eins og við höfum orðið áskynja um að þarf að gera eftir mikil fasteignaviðskipti á síðustu árum.