135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skýrsla OECD um heilbrigðismál.

[12:16]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ábendingar OECD í heilbrigðismálum skipta okkur miklu máli. OECD hefur beint sérstakri hvatningu til Íslands hvað þetta varðar.

Það sem OECD leggur meðal annars áherslu á er aukinn einkarekstur og styrkara kaupendahlutverk í heilbrigðisþjónustu sem er einmitt það sem þessi ríkisstjórn vill gera að ákveðnum skilyrðum uppfylltum eins og að aðgangurinn að þjónustunni sé óháður efnahag eins og við höfum margrætt í þingsalnum.

OECD leggur einnig til að áhersla verði aukin á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og það er sömuleiðis markmið þessarar ríkisstjórnar. Aukin heimaþjónusta er jafnframt í hvatningarorðum OECD og það er skemmst frá því að segja að fjármagn í heimahjúkrun á Íslandi á að þrefaldast á þremur árum þannig að þarna erum við einnig á réttri leið.

Samkeppni á lyfjamarkaði er sömuleiðis atriði sem OECD dregur fram og einmitt núna liggur fyrir frumvarp á þingi sem hefur það að markmiði. Það er því ljóst að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson eru að gera margt af því sem sérfræðingar OECD mælast til að við gerum.

Íslenska heilbrigðiskerfið er gott. Það er líka dýrt, sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að íslenska þjóðin er ein sú yngsta í Evrópu. Þá staðreynd verðum við að viðurkenna. Það eru hins vegar fjölmörg tækifæri til að gera gott kerfi enn betra, en til að ná því markmiði megum við ekki vera föst í kreddum heldur verðum við að nálgast breytingar með opnum huga þar sem réttlæti er tryggt.