135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skýrsla OECD um heilbrigðismál.

[12:20]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Það kemur fram í þessari skýrslu að við séum öfundsverð af stöðu heilbrigðismála á Íslandi og þjónustan í hæsta gæðaflokki. Það er varla hægt að fá betri einkunnagjöf frá alþjóðlegum aðila sem hefur tekið út heilbrigðiskerfið og borið það saman við önnur lönd.

Varnaðarorðin sem fram komu í skýrslunni eru þau að kostnaður við kerfið muni vaxa mjög mikið á næstu 45 árum, þ.e. úr 9,5% af landsframleiðslu upp í 15,2%. Ég tel reyndar að OECD geri of mikið úr þessari hættu, það verði að minnsta kosti að meta hana á þeim forsendum sem matið er reist, þ.e. núverandi forsendu. Við vitum að margt á eftir að breytast á komandi áratugum, bæði tækninýjungar, verðlækkun á ýmsum lækningavörum, breytt viðhorf, nýir sjúkdómar og annað slíkt. Það er ómögulegt að mínu mati að setja fram spá sem er líklegt að gangi eftir, eins og OECD gerir um vaxandi kostnað við heilbrigðiskerfið. Ég held að menn eigi auðvitað að líta til þessara hluta en halda þeirri stefnu sem hefur verið á undanförnum áratugum.

Ég get tekið undir margt í tillögum OECD, þó ekki þær áherslur að auka eigi hlutdeild sjúklinga í kostnaði við heilbrigðiskerfið. Ég vek athygli á niðurstöðum sem fram hafa komið í skýrslum sérfræðinga Tryggingastofnunar ríkisins sem benda á að það sem stundum er kallað sóun í heilbrigðiskerfinu er fyrst og fremst vegna ákvarðana þeirra sem í kerfinu starfa, einkum læknanna. Um 30% af kostnaðinum getur verið sóun af þeirra ákvörðun en ekki ákvörðun sjúklinganna. Menn hljóta að einbeita sér að því sem menn telja að betur megi fara varðandi kostnað, (Forseti hringir.) en ekki sjúklingunum, virðulegur forseti.