135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skýrsla OECD um heilbrigðismál.

[12:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Skýrslur OECD núna upp úr áramótum eru hefðbundnar um margt. Þær eru ábendingar til stjórnvalda. Sumt vill ríkisstjórnin hlusta á og annað ekki. Hér eru ábendingar um að viðskiptajöfnuður hafi aukist hröðum skrefum, verðbólga sé hættulega mikil og skuldir Íslendinga fari hraðvaxandi, séu þær hæstu innan OECD. Þetta hefur ríkisstjórnin ekki viljað hlusta á. Hún hefur jafnan viljað hlusta á ábendingar frá OECD um að markaðsvæða húsnæðiskerfið og heilbrigðiskerfið. Þetta er gamalkunnur tónn. Að þessu leyti hefur OECD skipað sér á svipaðan bás og stofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann sem hafa verið talsmenn og áróðursmeistarar fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Ég vil af þessi tilefni minna á að fyrir þinginu liggur þingmál frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði með ítarlegri greinargerð upp á 46 blaðsíður þar sem við leggjum til að fram fari rannsókn á áhrifum markaðsvæðingar samfélagsþjónustunnar. Helmingurinn af þessari skýrslu fjallar um heilbrigðismál. Ég spyr hvort ekki væri ráð í stað þess að þjarka um þessi efni, kosti og galla markaðsvæðingar, að ráðast í rannsókn og athuganir af þessu tagi.

Hæstv. ráðherra er með yfirlýsingar á þá leið að ríkisstjórnin sé á heimsmælikvarða þegar heilbrigðismálin séu annars vegar. Þetta er hraustlega mælt af ráðherra sem treystir sér ekki til að mæla fyrir fjárveitingum til Landspítalans þannig að hann gæti staðið við óbreytta þjónustu á því ári sem nú er hafið og er að bjóða út starfsemi, einkavæða og markaðsvæða starfsemi innan heilbrigðiskerfisins þvert á vilja starfsfólks og gegn mótmælum þess, enda segir hæstv. ráðherra að það þurfi þrek til. (Forseti hringir.) Það þarf þrekmenn til að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, í heilbrigðismálum.