135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar.

492. mál
[13:50]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég stend hér upp til að taka undir þá tillögu til þingsályktunar sem hv. þm. Guðni Ágústsson flytur ásamt tilgreindum meðflutningsmönnum sínum. Ég tel mjög vel við hæfi að unnið verði að því að stofna hér skáksetur til minningar um þá stórmeistarana Friðrik Ólafsson og Bobby Fischer.

Eins og hv. þm. Guðni Ágústsson fylgdist ég í æsku með ferli okkar glæsta snillings Friðriks Ólafssonar þegar hann vann á stórmótum erlendis og/eða vann ekki, þvert gegn væntingum okkar sem fylgdumst af athygli með því hvernig honum reiddi af. Það var ekkert ofmælt hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni áðan að þjóðin fylgdist virkilega með og skipaði sér í sveit að baki Friðriki Ólafssyni stórmeistara. Það er ekki í fyrsta skipti sem norrænir menn vinna glæstan sigur í Hastings á Englandi. Hv. þm. Guðni Ágústsson rakti að Friðrik Ólafsson hefði unnið slíkan sigur árið 1956 og það var einmitt þá sem ég hygg að athygli þjóðarinnar hafi beinst svo rækilega að því að þarna hefðum við eignast skáksnilling í fremstu röð.

Varðandi Bobby Fischer og tengsl hans við landið má taka undir þau sjónarmið að tengslin hafi verið merk og í sjálfu sér er ekki ástæða til að orðlengja eða endurtaka það, en ég hygg að fáir áhugahópar hafi unnið betra eða merkara starf á síðari árum en þeir sem á sínum tíma unnu að því að koma Bobby Fischer úr þeirri einangrun sem hann var í í Japan og undan því harðræði sem hann mátti þola af hálfu heimalands síns. Vegna hvers? Vegna þess að hann hafði leyft sér það sem frjálsborinn maður að fara á skákmót erlendis. Hann hafði farið á skákmót í Júgóslavíu og eftir það gat hann ekki um frjálst höfuð strokið. Það er virðingarvert að sá áhugahópur sem hv. þm. Guðni Ágústsson rakti hverjir hefðu verið í skyldi hafa brugðist við og beitt sér fyrir því að Bobby Fischer fengi að koma hingað til landsins, fengi íslenskan ríkisborgararétt og fengi hér aðsetur. Það er sómi að því fyrir alla sem að því komu að hafa staðið að málum með þeim hætti að Bobby Fischer skyldi geta komið hingað og eytt síðustu árum ævi sinnar á Íslandi.

Varðandi þá tillögu um að hafa alþjóðlegt skáksetur svo sem hér er lagt til er einungis eitt sem ég staldra við. Ég er sammála henni að öllu leyti, en samt sem áður velti ég fyrir mér hvort það sé nauðsynlegt að þetta alþjóðlega skáksetur þurfi að vera í Reykjavík. Í sjálfu sér mætti það vera einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu og þá í víðtækasta skilningi þess orðs, þess vegna á Selfossi, vegna þess að í sjálfu sér hamlar því ekkert að hafa alþjóðlegt skáksetur einhvers staðar aðeins fyrir utan höfuðborgina, ekki kannski síst miðað við það að talað er um af hálfu borgarstjórnar Reykjavíkur að hafa skákakademíu í Reykjavík. Þá færi e.t.v. betur á því að alþjóðlegt skáksetur til minningar um stórmeistarana Friðrik Ólafsson og Bobby Fischer risi einhvers staðar annars staðar án þess að það sé í mínum huga nokkurt stórmál. Það var vissulega í Reykjavík sem Bobby Fischer vann sér sinn heimsmeistaratitil þar sem hann kom með sínum sérkennilegheitum en vann samt sem áður hug og hjörtu ýmissa. Þar var háður áfangi í þeim hildarleik kalda stríðsins sem var á svo margvíslegum vettvangi háður þar sem menn skipuðu sér í flokka með réttum eða óréttmætum hætti eftir atvikum.

Bobby Fischer var hins vegar táknmynd sem vann sigur og ímynd lýðræðissinna í baráttunni gegn kommúnismanum. Það var þess vegna kaldhæðni örlaganna að þessi mikli skáksnillingur, Bobby Fischer, skyldi þurfa að líða fyrir það síðustu ár ævi sinnar að vera hundeltur og ofsóttur af sínu eigin heimalandi. Sem unnanda mannréttinda fannst mér miður að þessi forustuþjóð hvað varðar lýðræði og sem hefur viljað kenna sig sem forustuþjóð hvað varðar mannréttindi skyldi fara þannig að gagnvart einum að sínum mestu snillingum. Það er þá sem ég tel að þeir Íslendingar og íslensk stjórnvöld sem komu að málum hafi gert mjög góðan hlut og sýnt almennum lýðréttindum virðingu með því að taka upp málstað Bobbys Fischers og gefa honum þann sess sem hann fékk hér, sem hann átti fyllilega skilið.

Það er vissulega tímabært að við minnumst eins okkar fremsta skáksnillings fyrr og síðar, Friðriks Ólafssonar, og minnumst Bobbys Fischers og ég þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni og meðflutningsmönnum hans fyrir að flytja þá tillögu til þingsályktunar sem hér ræðir um.