135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar.

492. mál
[14:06]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er létt yfir hv. þingmönnum og eðlilegt þegar slík tillaga sem þessi er hér rædd. Ég held að það sé rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, a.m.k. man ég ekki eftir að hv. þm. Guðni Ágústsson hafi komið með jafnmerka tillögu og þá sem hér liggur fyrir.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni varðandi það að það er eðlilegt að hraða meðferð þessarar tillögu væntanlega í menntamálanefnd þegar þar að kemur. Þó að þar liggi mikið fyrir held ég að vel væri við hæfi að þessi tillaga fengi hraða meðferð. Að vísu er það spurning hvort hv. þm. Guðni Ágústsson, 1. flutningsmaður, vill kannski fá að flytja hana nokkrum sinnum áður en hún verður samþykkt til þess að athyglin verði nægjanleg, þannig að það er spurning hvort það sé ekki rétt að hv. 1. flutningsmaður tjái sig um það hér, ég trúi að hann haldi hér merka lokaræðu um þessa ágætu tillögu.

Það er afar vel til fundið að hér verði komið upp skáksetri sem verður helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar. Það eru hreinar línur að engir tveir einstaklingar hafa haft eins mikil áhrif á Íslendinga á skáksviðinu og þessir tveir menn. Þeir eru uppi á svipuðu róli þegar þeir eru að vinna sín stærstu afrek. Friðrik hefur alveg gífurleg áhrif hér á landi vegna þeirra afreka sem hann vann. Ég var svo heppinn að vera á yngri árum á þeim tíma og var einn af þeim sem smitaðist af þessari bylgju og sé ekki eftir þeim tíma sem fór í iðkun þeirrar ágætu listgreinar sem skákin er. Skákin er reyndar svo merkileg að um leið og hún er listgrein er hún að auki íþróttagrein og siglir þar jafnt um en af einhverjum ástæðum ekki verið tekin inn eða ekki sóst eftir því, ég held að það sé svona ýmist, að vera hluti af íþróttahreyfingunni á formlegan hátt, þ.e. að vera í Íþróttasambandi Íslands. Ég hef talið um nokkurt skeið að eðlilegt væri að skákin væri þar þó að hún hafi auðvitað þetta mikla listræna ívaf sem fylgir henni.

Ég sagði áðan að það væri alveg ljóst að þessir tveir menn hefðu haft gífurleg áhrif hér, þá sögu þekkja allir og þarf ekki að rifja hana upp. Friðrik var um langt skeið þekktasti Íslendingurinn og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rifjaði upp kynni sín af því hvað Rússar þekktu vel til grandmaster Ólafssonar. Ég get vitnað um það sama þegar ég var á yngri árum að þvælast á skákmótum víða um Norðurlöndin. Það var eiginlega alveg sama hverja maður hitti, ekki bara skákmenn heldur bara í heimahúsum, að Ólafsson var oft eini Íslendingurinn sem menn höfðu yfir höfuð heyrt talað um. Það er því klárt mál að Friðrik Ólafsson á það inni hjá þjóðinni að eitthvað þessu líkt verði gert.

Fischer kom hér líka við sögu, ekki bara það að hafa verið svona glæsilegur og efnilegur og öflugur skákmaður með ýmis áhrif á þróun skáklistarinnar, heldur kemur hann líka sterklega við sögu okkar líka. Í fyrsta lagi í kringum heimsmeistaraeinvígið árið 1972. Það er náttúrlega stór saga að segja frá því hvernig á því stóð að við náðum því einvígi, sem er alveg stórmerkilegt. Hann kom hér og var þá þekktur en ekki síður það að einvígið varð stórmerkilegt og báðir einstaklingarnir sem tóku þátt í því áttu mikinn sóma, Fischer kannski fyrst og fremst sómann af því hvað hann gerði á taflborðinu en Spasskí af því hvernig hann kom fram við allt og alla. Það var kannski ekki sterkasta hlið Fischers að hugleiða framkomu sína við aðra en við skákborðið hafði hann alla vega sínar sterkustu hliðar á hreinu.

Við þekkjum líka síðasta kafla ævi hans þegar íslenska þjóðin kemur að því að hjálpa honum í hans nauðum síðustu æviárin, búa honum aðstæður sem voru miklu betri en honum buðust annars staðar. Ég endurtek því og tek undir að hér er um mjög merka tillögu að ræða. Ég tel eðlilegt að henni sé hraðað á þeim hraða sem hv. 1. flutningsmaður óskar eftir hér í gegnum þingið. (GÁ: Ekki á hraða snigilsins.)