135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

stefnumörkun í málefnum kvenfanga.

514. mál
[14:51]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs sem einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu og vil sérstaklega þakka frumkvæði hv. þm. Ölmu Lísu Jóhannsdóttur að bera þetta brýna mál hér inn í þingsali. Ég ætla ekki að endurtaka þær röksemdir sem hér hafa verið fluttar og ég held að hljóti öllum að vera ljósar. Konum í fangelsum fjölgar um allan hinn vestræna heim og einnig hér á landi og það umfram fjölgun karlfanga. Sú staðreynd hefur auðvitað mikil áhrif, ekki bara á konurnar sjálfar sem hér um ræðir heldur á fjölskyldur þeirra og á samfélagið í heild. Þessi staðreynd ætti þess vegna líka að hafa áhrif á stefnu okkar í fangelsismálum og byggingu fangelsa.

Hér hefur komið fram að fæstir kvenfanga eru dæmdir fyrir ofbeldisglæpi. Þetta sýnir okkur og sannar að kvenfangar ættu að vera í forgrunni þegar horft er til svokallaðra „alternatífra“ úrræða í fangelsismálum, opinna fangelsa eða annars slíks, vegna þess að þær eru sjaldnast ógn við almennt öryggi og þurfa sjaldnar að vera í öryggisgæslu en karlar. Það skýtur þess vegna skökku við ef áætlanir íslenskra stjórnvalda miðast við að vista kvenfanga saman með karlföngum í öryggisfangelsi þar sem í okkar litla samfélagi, eins og hér hefur verið bent á, geta jafnvel setið á fleti fyrir karlar sem hafa beitt þessar sömu konur kynferðislegu eða öðru ofbeldi.

Það er nauðsynlegt að ítreka það sem hér hefur verið sagt um ólíkar þarfir karla og kvenna, ekki bara til náms, tómstunda og útivistar, heldur langar mig til þess að bæta einu við og það er sú staðreynd að aðferðir sem er beitt í fangelsum til þess að styrkja aga, eins og það er kallað, aðferðir sem eru ætlaðar til þess að brjóta á bak aftur afneitun og varnarviðbrögð fanga, virka kannski á karla, ekki síst á ofbeldisfulla karla, en geta haft þveröfug áhrif á konur einmitt vegna þeirrar reynslu sem sýnt hefur verið fram á að kvenfangar hafa af mjög miklu sálrænu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.

Það er dapurlegt að við skulum búa við kynbundna mismunun í fangelsum á Íslandi en ég hygg að það verði fljótt liðin tíð og vonandi eru allir sammála um að það megi ekki við svo búið standa. Hin góða skýrsla sem nefnd undir forustu Margrétar Frímannsdóttur skilaði um framtíðarrekstur fangelsisins að Litla-Hrauni og hér hefur margoft verið vitnað til slær nýjan tón í þessum efnum. Sú þingsályktunartillaga sem hér er flutt er flutt til þess að láta þann tón heyrast og enduróma inn í þingsali og við flutningsmenn vonum svo sannarlega að það verði til þess að þingsályktunartillagan verði samþykkt.