135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárveitingar til úrbóta á sviði geðverndar barna og ungmenna.

[15:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og heilbrigðisráðherra sem hér talar er að beita sér sérstaklega í þágu barna og ungmenna sem glíma við geðraskanir. Þess vegna samþykkti Alþingi aðgerðaáætlun strax og ríkisstjórnin var mynduð sem tekur mið af þessari pólitísku stefnumótun. Mér er bæði ljúft og skylt að svara fyrirspurnum hv. 11. þm. Reykv. s. sem gerir málefni þessi að umtalsefni á Alþingi.

Í samræmi við aðgerðaáætlun sem samþykkt hafði verið og gerð var að höfðu miklu og nánu samstarfi við fagaðila, einkum BUGL og Miðstöðvar heilsuverndar barna, þá ákvað ég að veita samtals 150 millj. kr. til ákveðinna verkefna á árunum 2007–2008. Þegar var hafist handa við að ráða starfsfólk til að vinna markvisst að því að stytta biðlista eftir þjónustunni bæði á BUGL og Miðstöð heilsuverndar barna.

Hv. 11. þm. Reykv. s. spyr um ráðstöfun þessa fjár. Landspítali fékk 48 millj. kr. á árunum 2007–2008 til að ná niður biðlistum á BUGL og taka á uppsöfnuðum vanda. Í tengslum við aðgerðaáætlunina hefur verið unnið að breyttum áherslum við þjónustu BUGL. Má sjá afraksturinn m.a. í fækkun barna á biðlista eftir þjónustu, styttingu meðalbiðtíma og breyttu vinnulagi sem m.a. hefur falist í því að lengja vinnutíma starfsfólks og auka samstarf við aðrar stofnanir sem sinna geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga.

Vinna við styttingu biðlista gengur samkvæmt áætlun. Á rúmu hálfu ári hefur tekist að fækka um rúmlega þriðjung eða 35% á biðlista BUGL eða frá 165 börnum í 107. En á sama tíma hafa borist 100 nýjar tilvísanir á BUGL og við stefnum á að bið eftir þjónustu verði komin í viðunandi horf í árslok.

Barna- og unglingageðdeild Landspítala fékk sérstaka fjárveitingu upp á 11 millj. kr. 2007 og 2008 til að efla ráðgjafarhlutverk deildarinnar við fyrsta og annars stigs þjónustuaðila með því m.a. að ráða fræðslustjóra og fjölga ferðum starfsmanna BUGL á heilbrigðisstofnanir úti á landi. Lögð hefur verið áhersla á ríkissamstarf við BUGL við aðra þjónustuaðila sem koma að málefnum barna og unglinga með geðraskanir, svo sem heilsugæslu og félagsþjónustu.

Í fyrsta lagi má nefna að gerðir hafa verið samningar við tvær heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu um leiðbeiningu og ráðgjöf frá starfsmönnum BUGL. Í öðru lagi hófst um áramót samstarf BUGL og Heilbrigðisstofnunar Austurlands sem felur í sér þjálfun starfsmanna heilbrigðisstofnunarinnar til að sinna geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga á Austurlandi.

Í þriðja lagi eru haldnir reglulegir samstarfsfundir með starfsmönnum þjónustumiðstöðva höfuðborgarsvæðisins og tilgangur þeirra er að auka samstarf m.a. með því að kynna þjónustu og flytja úrræði og þekkingu frá BUGL í nærumhverfi barna.

Í fjórða lagi hefur samstarf við greiningarteymi við heilsugæslu- og skólaskrifstofu Akraness verið endurvakin. Jafnframt hafa önnur sambærileg teymi óskað eftir endurnýjun samstarfs bæði á Suðurnesjum og Suðurlandi.

Í fimmta lagi má geta þess að starfsmenn BUGL hafa annast handleiðslu og fræðslu fyrir starfsfólk Miðstöðvar heilsuverndar barna sl. tvö ár. Þá hefur verið ráðinn fræðslustjóri sem liður í eflingu þjónustu BUGL. Starf hans felst í skipulagningu og fræðslu fyrir foreldra, aðra þjónustuaðila og umsjón með stærri ráðstefnum. Hafinn er undirbúningur fræðsluverkefna til að auka stuðning við foreldra og þjónustuaðila í nærumhverfi.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fékk 30 millj. kr. árin 2007 og 2008 til eflingar Miðstöðvar heilsuverndar barna til að koma á jafnvægi og ná niður biðlistum á einu ári. Starfsfólk miðstöðvarinnar tók að sér aukna yfirvinnu auk þess að barnageðlæknir var ráðinn í hlutastarf ásamt sálfræðingum. Verulegur árangur hefur náðst hjá Miðstöð heilsuverndar barna í að ná niður biðlistum fyrir þjónustu jafnframt sem biðtími barna eftir þjónustunni hefur styrkst. Í ágústmánuði 2007 voru 110 börn á biðlista eftir þjónustu í Miðstöð heilsuverndar barna. Hefur þeim fækkað í um 80 börn eða um 28% sem bíða eftir þjónustu frá miðstöðvunum. Biðtími eftir þjónustunni var áður frá einu ári upp í eitt og hálft ár en er kominn niður í tvo til sex mánuði. 14 millj. kr. voru veittar til tveggja heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Heilbrigðisstofnunar Austurlands, til að styrkja tilraunaverkefni til að efla samruna þjónustuaðila með því að fjármagna starf umsjónaraðila í eitt ár. Fjárveitingin er veitt í því skyni að auka samvinnu milli heilbrigðisþjónustunnar, félagsþjónustunnar og annarra aðila sem veita einstaklingum með hegðun og geðraskanir þjónustu. Þá hafa 35 millj. kr. verið veittar til að auka aðgengi barna og unglinga að sjálfstætt starfandi sérfræðingum á sviði geðheilbrigðisþjónustu og hefur samninganefnd ráðherra nú þegar gert samning við sálfræðinga um þjónustu þeirra.

Aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra sem kynnt var í ágúst á síðasta ári tók mið af brýnustu þörfum barna og unglinga sem þjást af geð- og hegðunarröskunum en einnig voru settir fjármunir í að styrkja almenna geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þá var um 7 millj. kr. veitt til undirbúningsaðgerða á sviði forvarna og um geðvernd barna og ungmenna til lengri tíma. Unnið er að þessari áætlun og niðurstaða þeirrar vinnu verður kynnt innan nokkurra vikna og þá verða jafnframt kynntar tillögur ráðherra um fjárveitingar til lengri tíma til þessarar þjónustu.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að sem fyrst komist jafnvægi á starfsemi barna- og unglingadeildar Landspítala þannig að deildin geti sinnt þeirri þjónustu sem henni er ætlað og að biðtími eftir þjónustu verði í viðunandi horfi. Samkvæmt fyrrnefndri aðgerðaáætlun er vinna að úttekt og starfsemi á stjórnun BUGL og gert ráð fyrir að niðurstöðurnar liggi fyrir eigi síðar en næsta haust og verði þá lögð til grundvallar ákvörðun um framtíðarskipun deildarinnar. Kostnaður við þessa úttekt er áætlaður 5 millj. kr.

Að lokum spyr hv. 11. þm. Reykv. s. (Forseti hringir.) hvort heilbrigðisráðuneytið hafi gert samning við geðdeild barna og unglinga, GB, sem stofnuð hefur verið innan Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. (Forseti hringir.) Samkvæmt upplýsingum heilbrigðisráðuneytisins er hópur barnalækna, sálfræðinga og barnageðlækna sem nú eru í stofurekstri og flestir á samningi við samninganefnd heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) að flytja rekstur sinn til Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. þar sem þau munu sameinast um rekstur og bjóða upp á þarflega þjónustu. Þessi hópur mun flytja starfsemi sína í Heilsuverndarstöðina í lok næstu viku.