135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárveitingar til úrbóta á sviði geðverndar barna og ungmenna.

[15:24]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu því að við erum að tala hér um mjög brýnt hagsmunamál fyrir okkur öll. Biðlistar í heilbrigðisþjónustu eru slæmir en biðlistar þegar börn og ungmenni eiga í hlut eru óþolandi. Það er töluverður munur á hvort fullorðið fólk bíður eða börn sem eru í örum þroska og standa frammi fyrir vanda sem bæði tekur miklum breytingum við þroskann og getur, ef ekki er gripið inn í, versnað mjög hratt eða orðið miklu illviðráðanlegri ef biðlistinn er mjög langur.

Aftur á móti veit ég vel og skynja hér áhuga hæstv. heilbrigðisráðherra á því að láta gott af sér leiða í þessu. Ég hvet hann þar til góðra verka, þetta hefur verið verkefni heilbrigðisráðherra fyrr og ekki langt síðan einn úr liði okkar framsóknarmanna lagði fram sérstaka aðgerð vegna þessara mála. Þá var m.a. horft sérstaklega til þess — ég er að tala um hv. þm. Siv Friðleifsdóttur — að færa verkefnin sem allra mest út til heilsuverndarstöðvanna, út í heilbrigðiskerfið og minnka þannig álagið hjá BUGL. Hin vægari tilvik, eins og ofvirkni og athyglisbrest sem eru mjög útbreidd vandamál, á að vera hægt að taka í almennri heilsugæslu, a.m.k. að einhverju leyti. Það eru einmitt þess háttar lausnir sem við eigum að horfa til og við þurfum auðvitað að koma okkur út úr því í heildina að heilbrigðiskerfið á Íslandi (Forseti hringir.) byggi á biðlistum.