135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárveitingar til úrbóta á sviði geðverndar barna og ungmenna.

[15:26]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Hér berst talið að sjálfsögðu að þeirri ágætu stofnun BUGL og í framhaldi af því er minnst á biðlista vegna þjónustu sem sú stofnun á að veita, og veitir vissulega. Í því sambandi vil ég taka fram að BUGL er í mínum huga endastöð. Það er þess vegna ástæða til að ítreka það sem ég sagði áðan, að á vandanum, þessum geðræna vanda svokallaða sem er kannski ekki alltaf hægt að skilgreina sem hreina geðveiki — það er verið að tala um ýmis andleg og huglæg vandamál — þarf að taka fyrr til hendi og byrgja þennan brunn áður en börnin detta ofan í hann með aðgerðum miklu fyrr í ferlinu. Ég endurtek í því sambandi að þar þarf að beita þeim tækjum sem felast í foreldraráðgjöf, heilsugæslustofnunum og fræðslu fyrir fjölskyldur og aðstandendur, að taka sem sagt á hinum félagslegu vandamálum sem fylgja þessum sjúkdómi miklu fyrr, bregðast við honum og rýna í orsakir og afleiðingar.

Ég endurtek að geðræn vandamál einstaklinga eiga sér langoftast rætur í umhverfi viðkomandi einstaklings, í fjölskyldunni, félagsskapnum, skólanum eða nærsamfélaginu. Mín ráðlegging til hæstv. heilbrigðisráðherra er sú að um leið og hann sér tækifæri til að veita meira fjármagn til geðrænna viðfangsefna eigi sömuleiðis að líta til þess hvernig þessum peningum sé varið. Ég tel að vel hafi verið að þessum málum staðið í tíð núverandi hæstv. ráðherra, það hefur verið viðleitni og vilji til að sækja fram á þessum vettvangi og ég hvet hann til að halda ótrauður áfram vegna þess að þetta er vaxandi vandamál í samfélaginu.