135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárveitingar til úrbóta á sviði geðverndar barna og ungmenna.

[15:31]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka bæði þeim hv. þingmanni sem hóf umræðuna og sömuleiðis öllum þeim sem tóku þátt í henni fyrir umræðuna. Ég held að þetta sé skýrt dæmi um það að hér á Alþingi er oftar en ekki málefnaleg og góð umræða, hér erum við að ræða mál sem við erum öll sammála um. Menn fóru bara málefnalega yfir það hvað við teldum gott hafa verið gert og hvað mætti gera betur. Ég held að þetta, eins og flest í heilbrigðismálum, sé þess eðlis að við eigum að geta tekið umræðuna fordómalaust. Það var mjög ánægjulegt að fá að taka þátt í þessari umræðu og það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að sem betur fer hefur náðst hér marktækur og mikilvægur árangur.

Geðheilbrigðismálin eru mjög mikilvæg og þar er svo sannarlega verk að vinna. Það er ekki sjálfgefið eins og hér var rætt að ef menn setja fjármuni í hlutina sé árangur. Ég held að við höfum gert rétt með því að vinna þetta með fagaðilum, bæði hjá BUGL, Miðstöð heilsuverndar barna og fleiri aðilum og að reyna að virkja sem flesta, bæði sjálfstæða aðila, í heilsugæslunni og fleiri. Ég held að það sé lykillinn að því að ná árangri. Ég er afskaplega ánægður með það starfsfólk sem hefur unnið að þessu og gaman að sjá hvernig það hefur m.a. náð tökum á BUGL og fleiri stofnunum hvað þetta varðar.

Einnig kom hv. þm. Ellert B. Schram algjörlega inn á kjarna máls sem er að reyna að nálgast þessi mál eins snemma og mögulegt er og vera með fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er þess vegna sem við erum að vinna að heilsustefnunni, þar eru geðheilbrigðismálin einn stór þáttur. Ég vonast til þess að við getum náð góðri samstöðu um þau mál og ég efast ekki um það hér á þinginu því að það er auðvitað gríðarlega stórt mál í þessu samhengi.