135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

skyndilokanir.

[13:48]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í kjölfar niðurskurðarins á veiðiheimildum í þorski á síðasta ári var gripið til ýmissa aðgerða sem áttu að verða til þess að auðvelda sókn í aðrar fisktegundir. Ein slík aðgerð fólst í því að breyta viðmiðunarmörkum á ýsu, þ.e. hve smá ýsan þarf að vera áður en grípa þarf til þess að loka veiðisvæðum. Þar ákvað hæstv. sjávarútvegsráðherra þvert ofan í ráðleggingar að minnka þessi viðmiðunarmörk þannig að ýsa þarf nú aðeins að vera 41 sentimetri að lengd til að rétt teljist að loka tilteknum veiðisvæðum fyrir veiðum á henni.

Þessi ákvörðun hæstv. ráðherra var gagnrýnd á þeim forsendum að hún mundi leiða jafnt til aukinna veiða á smáýsu og ekki síður til vaxandi veiðiálags á smáþorski sem þó er alltaf verið að reyna að koma í veg fyrir og er talin vera forsenda þess að hægt sé að byggja þorskstofnana upp við landið að nýju. Á þessu rök féllst hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki á síðasta ári.

Nú þegar fiskveiðiárið er liðlega hálfnað er athyglisvert að sjá hvernig þessum málum hefur reitt af. Á árinu 2007 var 180 sinnum gripið til skyndilokana hér við land vegna veiða á smáfiski, þar af 74 sinnum vegna veiða á smáþorski og 62 sinnum vegna veiða á smáýsu. Nú er þetta hins vegar allt með öðrum hætti og á fyrstu þrem mánuðum þessa árs hefur verið gripið 21 sinni til skyndilokana, þar af fimm sinnum vegna veiða á ýsu en 16 sinnum vegna veiða á þorski. Með öðrum orðum, aðgerðir hæstv. sjávarútvegsráðherra sem áttu fyrst og fremst að beinast að því að vernda og byggja upp þorskstofnana við landið hafa orðið til hins gagnstæða. Ríflega þrjár af hverjum fjórum skyndilokunum þessa árs eru vegna veiða á smáþorski sem ætlunin var að forða frá veiðum með þessum aðgerðum. Í stað þess að draga úr veiðunum hefur sóknin aukist.

Í ljósi þessa vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann telji að framangreindar aðgerðir hafi verið misráðnar og hvort hann hafi í hyggju að grípa til ráðstafana og þá hverra til að koma í veg fyrir að við göngum jafnvel endanlega frá tveimur fiskstofnum dauðum með þessum aðgerðum, þ.e. ýsu og þorski, í staðinn fyrir að reyna að byggja þá upp.