135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

skyndilokanir.

[13:50]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er algjör misskilningur hjá hv. þingmanni að gripið hafi verið til þeirra aðgerða sem hann lýsti þvert ofan í ráðleggingar. Það var einfaldlega þannig að starfsbræður hv. þingmanns, skipstjórnarmenn víða að af landinu, hittu mig að máli og sögðu það, sem hefur reyndar líka komið fram í blaðaviðtölum við þá, að eina alvörumótvægisaðgerðin sem sneri að sjómönnum væri sú að fara í það að skoða hólfaskiptinguna sem við höfum búið við við landið til lengri og skemmri tíma með það fyrir augum að athuga hvort hægt væri að heimila veiðar í þessum hólfum sem oft og tíðum hafa verið lokuð til lengri tíma.

Menn bentu á það sem ég hygg að sé alveg hárrétt, og ég veit að hv. þingmaður hlýtur að vera sammála starfsbræðrum sínum um það, að mjög margt hefur breyst frá því að þessi hólf voru ákveðin á sínum tíma og það var auðvitað sjálfsagður hlutur að skoða hvort aðstæður í þessum hólfum væru þannig að ástæða væri til að hleypa á einhverri veiði. Það var hins vegar gert að mjög vel yfirveguðu ráði. Fundur var haldinn með þessum skipstjórnarmönnum og fulltrúum Hafrannsóknastofnunar, sem hingað til hefur verið frekar ásökuð um að vilja ganga mjög hart fram í því að loka, mjög hart fram í því að stunda friðunaraðgerðir, svo hart raunar að það hefur verið gagnrýnt mjög harkalega hér í þinginu. Það var eftir að þessi fundur var haldinn að Hafrannsóknastofnun fór yfir þessi mál og lagði til tilteknar breytingar sem ég fór síðan eftir. Það hefur hins vegar borið þann ágæta árangur að við sjáum það að gagnstætt því sem menn héldu fram þegar aflaákvörðun var tekin á síðasta sumri hefur ýsuveiðin gengið vel og ég sá það í fréttum nýlega að menn áætla að ýsukvótinn muni klárast á þessu fiskveiðiári alveg gagnstætt því sem menn héldu fram.

Hv. þingmaður spyr mig að því hvort þessi mál verði endurskoðuð. Að sjálfsögðu verða þau endurskoðuð í ljósi reynslunnar. Ég held hins vegar að reynslan sé að benda til þess að þetta hafi tekist ágætlega. (Gripið fram í.) Þær skyndilokanir sem hv. þingmaður talaði um eru einungis til marks um það að þetta eftirlitskerfi sem við höfum hefur verið að virka þrátt fyrir allar hrakspárnar sem voru settar fram.