135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

hvalveiðar og ímynd Íslands.

[13:59]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er vissulega mannlegt að verja hendur sínar en kannski ekki mjög stórmannlegt af núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að lýsa yfir ágreiningi við það fólk sem hæstv. forsætisráðherra fól að meta ímynd Íslands og gerir á þennan hátt í kaflanum Ímyndarkreppur.

Hins vegar á sjávarútvegsráðherrann ekki alla sök í þessu efni. Hann styðst m.a. við fræga ályktun frá Alþingi Íslendinga, frá því fyrir níu árum, 10. mars 1999. Hann gat vísað til hennar þegar hann ákvað að fara í hvalveiðar í hagnaðarskyni. Að sínu leyti mörkuðu þær veiðar, sumarið 2006, ákveðin tímamót bæði í afstöðu Íslendinga og í málinu í heild þótt umhverfisverndarsamtök í heiminum héldu skipulega að sér höndum í þessu máli.

Ég tel að þessi ályktun frá 10. mars 1999 sé úrelt og að kominn sé tími til fyrir Alþingi Íslendinga að taka þessi mál upp aftur, m.a. í ljósi þeirra ákvarðana sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur tekið í því.