135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

hvalveiðar og ímynd Íslands.

[14:00]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir það með hv. þingmanni að það sé ekki stórmannlegt að hafa skoðun á einhverju nefndaráliti, jafnvel þótt það sé skrifað af hinu prýðilegasta fólki sem hefur vandað mjög til verka sinna.

Ég var einfaldlega að benda á að í fyrsta lagi er þessi nefnd ekki óskeikul. Í öðru lagi er þetta klárlega mjög huglægt mat sem hún reynir að leggja á þessa hluti. Ég reyni að byggja á einhverju sem við getum kallað reynslusannindi og reynslan hefur auðvitað sýnt okkur, sem betur fer, að ótti þeirra sem báru mestan kvíðboga fyrir þeirri ákvörðun sem var tekin haustið 2006 var ekki á rökum reistur. Það hefur komið glögglega fram að þær atvinnugreinar sem menn óttuðust að mundu skaðast af þessu, útrásarstarfsemi, ferðaþjónusta og sala á vörum sem sérstaklega tengdust Íslandi, urðu ekki fyrir áhrifum. Það hefur enginn skaðast neitt á þessu. Þvert á móti hefur maður orðið var við vaxandi kröfur, t.d. úr sjávarútveginum, að við höldum áfram þessari sjálfbæru, skynsamlegu og eðlilegu auðlindanýtingu. Það munum við gera ef til þess kemur. Ef til þess kemur þá munum við auðvitað gera það í fullu samráði og með fullu tilliti til þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður gerði grein fyrir.