135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

olíugjald.

[14:06]
Hlusta

Samúel Örn Erlingsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir góð svör. En ég vek athygli á því að þetta eru ekki bara skattamál og ekki bara hagsmunamál vörubílstjóra. Þetta er líka umhverfismál. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til að íhuga málið betur og berjast í því með oddi og egg.

Það liggur fyrir að nútímadísilvélar eru miklu umhverfisvænni en bensínvélar. Sérfræðingum í gerð aflvéla í bíla ber saman um að framfarir síðustu ára hafi orðið mestar í gerð dísilvéla og það eigi ekki síst við um þau fjögur ár sem liðin eru frá því lög um olíugjald voru sett, á þeim forsendum sem ég nefndi áðan. Framfarirnar taka til nýtingar eldsneytis og mengunarvarna þar sem tekist er á við losun sótagna. Til að hvetja til kaupa á dísilbílum þarf að lækka olíuverð, það liggur fyrir.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eru tekjur af olíugjaldi áætlaðar 6 milljarðar kr. árið 2008, 41 kr. á hvern lítra, svo það er af töluverðu að taka. Til að vega á móti tekjutapi sem af þessu hlytist er rétt að benda á verulega tekjuaukningu af virðisaukaskatti til ríkissjóðs vegna mikillar hækkunar olíuverðs á heimsmarkaði.

Með slíkri ákvörðun væri sannarlega hægt að skapa meiri frið í samfélaginu um eldsneytisverð, lækka verðbólgu og nálgast umhverfismarkmið.