135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:02]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, ég var auðvitað að skamma hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir hitt og þetta en ekki fyrir minnimáttarkennd, ég mundi kannski seint saka hana um að vera haldna minnimáttarkennd. Ég notaði það orð — og taki þeir sneið sem eiga — miklu frekar um drætti í utanríkisstefnu Íslands frá stríðslokum og til okkar daga nokkurn veginn, það er best að afmarka það ekki frekar í þessu samhengi.

Þegar ég tala um NATO-væðingu og gagnrýni að það orð sé notað og glotti yfir því að hér sé verið að binda einhvern á einhvern klafa með fornaldarlegu orðalagi eða orðalagi frá miðri síðustu öld, þá er það ekki vegna þess að það svíði eitthvað hjá mér undan því heldur vil ég einmitt með þessari ræðu minni hér í dag láta það í ljósi að arftakar þeirrar hreyfingar — merkilegrar og mikilvægrar hreyfingar — sem hér spratt upp um miðja síðustu öld og barðist gegn her í landi og stór hluti hennar, þó ekki allir, einnig gegn aðild að Atlantshafsbandalaginu — eru víðar en í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það kynni nú kannski að vera að Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri hér í pólitísku skyni að reyna að helga sér þennan arf, að reyna á einhvers konar flokkslegum forsendum að telja mönnum trú um að hann eigi bara heima í þeirra einörðu eða ofsafengnu afstöðu. Það er ekki svo. Sá arfur, ef menn vilja greina hann pólitískt, á líka heima með nýjum hætti í Samfylkingunni og hann á líka heima í Framsóknarflokknum en fulltrúar úr þeim flokki voru mjög virkir í þessari hreyfingu.

Ég held þó að við eigum aðallega að loka þessum arfdyrum, ég held að við eigum að segja að þetta sé Íslandssaga og reyna að koma okkur að því með eðlilegum, skynsamlegum hætti að ræða nýja tíma og þær kröfur sem þeir gera til okkar og til (Forseti hringir.) íslenskrar löggjafar.