135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:24]
Hlusta

Frsm. minni hluta utanrmn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tek svo sannarlega undir með hv. formanni utanríkismálanefndar að það hefði verið heppilegra að hættumatið hefði legið fyrir áður en þetta frumvarp verður lögfest.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði að hér væri verið að mynda lagaumgjörð sem við þyrftum ekki að búa við til framtíðar. Ástæðan fyrir því að grípa hefði þurft til þess að binda þetta í lög, sem hann kallaði reyndar tæknilegt atriði, hefði verið hversu óvænt herinn fór með svo skömmum fyrirvara og hvernig viðskilnaðurinn var í september 2006.

Í ljósi þessara orða hefði mér þótt eðlilegt að inn í þetta frumvarp kæmi ákvæði um endurskoðun, áskilnaður um endurskoðun eftir tiltekinn tíma, eins og oft er þegar verið er að fitja upp á nýmælum. Því ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að þetta sé alls ekki bara tæknilegt atriði, langt í frá, ég tel að þetta sé efnisleg breyting á utanríkismálastefnu og öryggismálastefnu Íslendinga. Það skiptir þá ekki öllu máli hvers vegna hún er til komin. Hún kann að vera til komin vegna þess að herinn fór, vegna þess að eitthvað hefur breyst í heimsmyndinni og vegna þess að það er komin ný ríkisstjórn, og guð má vita hvað.

En efnisleg breyting er þetta engu að síður og ég endurtek það sem ég hef áður sagt að NATO-væðing er eina orðið sem ég hef yfir það þegar við erum að binda í lög í fyrsta sinn, og það er ekkert tæknilegt við það, útgjöld til heræfinga og þegar við erum að taka sæti m.a. í herstjórnarmiðstöð NATO og skuldbinda okkur til þess að halda hér uppi heræfingum, nota bene á friðartímum. Þetta er efnisleg breyting í mínum huga en ekki tæknileg.