135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:52]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það hefur verið nokkuð athyglisvert að heyra málflutning þeirra NATO-sinna sem hér hafa talað úr báðum ríkisstjórnarflokkunum og þá kannski ekki síst hv. þm. Marðar Árnasonar sem ræddi um frumvarpið sem er hér til umræðu sem nokkurs konar sjálfstæðisyfirlýsingu þjóðarinnar, að hér væri verið að lýsa yfir sjálfstæði þjóðarinnar í stað þess að binda hana á klafa NATO-veldisins. (MÁ: Heyr, heyr. Rétt skilið.) Á sömu nótum talaði hæstv. utanríkisráðherra og Mörður Árnason sér sérstaka ástæðu til að kalla hér fram í til að undirstrika það að ég túlka orð hans rétt.

Málið er fyrst og fremst tæknilegs eðlis, segir hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar. Málið er fyrst og fremst tæknilegs eðlis, segir hæstv. utanríkisráðherra. Hér er ekki verið að gera nokkurn skapaðan hlut. Ekki er verið að lögbinda aðild Íslands að NATO, segir hæstv. utanríkisráðherra. Ekki er verið að lögbinda heræfingar í landinu, segir hæstv. utanríkisráðherra sömuleiðis.

Um hvað fjallar þá frumvarpið sem hér er verið að ræða?

Þar segir m.a., með leyfi forseta, í 7. gr. um verkefni Varnarmálastofnunar að helstu verkefni þeirrar stofnunar séu:

„Rekstur íslenska loftvarnakerfisins, þar með talið fjarskiptastöðva og ratsjárstöðva Atlantshafsbandalagsins, þátttaka í loftrýmiseftirliti Atlantshafsbandalagsins, rekstur gagnatenginga við upplýsingakerfi Atlantshafsbandalagsins og undirstofnana þess, þátttaka í starfi nefnda og undirstofnana Atlantshafsbandalagsins, þar með talið herstjórnarmiðstöðvar bandalagsins.“

Um hvað snúast þessi lög þá annað en það að þvæla Íslandi enn (Forseti hringir.) frekar inn í það NATO-hernaðarbandalag sem Mörður Árnason var áður andvígur en hefur nú dásamað hér í allan dag.