135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:56]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það hefur farið fram hjá hæstv. utanríkisráðherra, þegar ég hóf mál mitt hér áðan, að ég var að vitna í hennar orð — gerði þau ekki að mínum — og fyrri ræðumanna ríkisstjórnarflokkanna hér á Alþingi, um að ekki væri verið að gera nokkurn skapaðan hlut með því að afgreiða þessi lög.

Eitt af því sem hæstv. utanríkisráðherra lagði áherslu á var að ekki væri verið að lögbinda heræfingar á Íslandi heldur væri eingöngu verið að staðfesta það sem þegar er orðið ef ég hef skilið hana rétt.

Þó segir í athugasemdum með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Varnaræfingar eru lykilþáttur í því að virkar varnir séu til staðar. Ekki er hald í áætlunum og aðgerðum sem ekki hafa verið æfðar í þaula. Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að æfa þær varnaráætlanir og aðgerðir sem skipulagðar hafa verið vegna varna landsins.“

Síðan er haldið áfram og endað á fjölþjóðlegum varnaræfingum sem haldnar voru og kallaðar Norðurvíkingur 2007 og undirstrikað að þetta sé í fyrsta skipti sem íslensk stjórnvöld axla ábyrgð á slíkri æfingu. Er þá ekki verið að tala um að halda hér æfingar? Er ekki verið að tala um að íslensk stjórnvöld axli þá ábyrgð sem fram kemur í frumvarpinu og menn hafa lagt áherslu á?

Önnur leið hefði verið fær í þessum málum fyrir hæstv. utanríkisráðherra og stuðningsmenn frumvarpsins og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar en leggja fram frumvarp að lögum til Alþingis um að þvæla Íslandi enn frekar inn í þetta hernaðarbandalag. Allt önnur leið hefði verið fær og hægt hefði verið að setja allt önnur lög til að fría Ísland frá þátttöku í slíkum bandalögum.