135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[16:00]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa 3. umr. mikið en þar sem hún hefur orðið þó nokkur vil ég segja nokkur orð fyrir hönd Framsóknarflokksins. Ég vil þá sérstaklega koma því á framfæri að við framsóknarmenn styðjum frumvarpið. Ástæðan er ekki síst sú að það er í samræmi við þær línur sem lagðar voru í tíð okkar í utanríkisráðuneytinu og í ríkisstjórn. Ég lýsi ánægju með að hæstv. utanríkisráðherra hefur ákveðið að fylgja þeirri stefnu sem vissulega er að sumu leyti nokkuð á skjön við það sem var stefna Samfylkingarinnar og það sem var stefna Kvennalistans og ég tala nú ekki um það sem hefur verið stefna Alþýðubandalagsins ef við förum lengra aftur í tímann. Að því leyti til tel ég að vel hafi tekist til um samningu frumvarpsins.

Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt að það er ein af grundvallarskyldum hverrar ríkisstjórnar að tryggja þegnunum öryggi að svo miklu leyti sem það er hægt. Við verðum því að koma okkur málum þannig fyrir núna þegar við höldum meira á þeim sjálf en áður hefur verið að við getum haft sóma af og það tel ég að sé gert með frumvarpinu, sem vissulega fjallar fyrst og fremst um stjórnsýsluna, hvernig við komum henni fyrir og það að færa ákveðna þætti úr utanríkisráðuneytinu yfir til Varnarmálastofnunar þegar hún mun taka til starfa — þetta eru sem sagt þeir þættir sem varða störf okkar í NATO, þetta eru öryggissvæði, þetta er Ratsjárstofnun.

Ég tel að Ratsjárstofnun gegni mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar. Ég lagði mikla áherslu á það þegar um þetta var vélað við Bandaríkjamenn að Ratsjárstofnun mundi starfa áfram. Ég undraðist það dálítið hvað Bandaríkjamenn sýndu þessari starfsemi lítinn áhuga vegna þess að lofthelgi okkar er stór og hún er mikilvæg og gerist æ mikilvægari eftir því sem árin líða t.d. miðað við breyttar aðstæður í norður-íshöfum. Frumvarpið á sem sagt fullan rétt á sér. Það er nauðsynlegt að koma málum þannig fyrir að hægt sé að tala um skilvirka stjórnsýslu á þessu sviði.

Hægt væri að hafa mörg orð um það almennt hvernig Íslendingar eiga að skipa sínum málum og hvort aðild að NATO sé réttlætanleg eða ekki. Ég heyri að því miður er ekki samstaða um það í íslenskri pólitík og á hv. Alþingi að NATO skipti okkur miklu máli og rétt sé að við vinnum með lýðræðisþjóðum sem þar starfa. Auðvitað hefði verið skemmtilegt ef meiri samstaða hefði getað orðið um það en raun ber vitni en það er nú svona eins og pólitíkin er.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi bara að það kæmi fram að við framsóknarmenn styðjum þetta mál og teljum að allvel hafi tekist til með það þó að auðvitað verði maður alltaf að reikna með að hægt sé að breyta lögum síðar ef betri aðferð finnst við þessa stjórnsýslu.