135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[16:04]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Því ber að fagna úr munni hv. varaformanns Framsóknarflokksins að Framsóknarflokkurinn styðji frumvarpið og sé sammála Samfylkingunni í þessum efnum.

Nú hefði þessi ræða ekki átt að vera lengri. En hv. þingmaður lét sér sæma að fara þeim orðum um stefnu Samfylkingarinnar að hún hefði breyst við framlagningu frumvarpsins. Það er einhver misskilningur og skrýtið að þingmaðurinn skuli láta þau orð líða sér um munn nema hún sé eins og sagt var á sveitaböllunum „að snapa fæting“.

Rétt er að geta þess að Samfylkingin hefur frá stofnun stutt aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Samfylkingin hefur áður en herinn fór — reyndar voru deildar meiningar um það hvort við ættum að hafa herlið á friðartímum hér eða ekki en um það voru — þó að ég talaði vel um Framsóknarflokkinn hér í fyrri ræðu minni — á þeim tíma engar deildar meiningar í Framsóknarflokknum. Hann vildi alveg endilega hafa herinn og heyrðist ekkert annað í Framsóknarflokknum en kveinstafir og betl um það að hún yrði sem lengst áfram, þar á meðal í þeim utanríkisráðherra Framsóknarflokksins sem hér talaði en stóð sig þó að öðru leyti, og á ýmsan hátt, vel í starfi sínu, þannig að það sé nú sagt.

Þó hafði sá utanríkisráðherra ekki dug í sér eða kannski ekki stuðning innan eigin flokks eða annarra til þess að hefja það starf að hættumati sem nú er hafið í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og vona ég að hann styðji einnig það starf. Það var líka stefna Samfylkingarinnar að skýr aðskilnaður yrði á milli borgaralegra verkefna og hernaðarlegra verkefna, að lög giltu um þessi mál í landinu. Að því leyti er frumvarp utanríkisráðherra algjörlega í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar auk þess að vera samhljóða (Forseti hringir.) stjórnarfrumvarp þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.