135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[16:12]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við þurfum að hafa í huga að ýmislegt breyttist þegar herinn fór og það var í september 2006 sem það gerðist. Þá þurftum við að hafa snör handtök og reyna að koma þessum málum þannig fyrir að íslensk stjórnsýsla tæki utan um það sem að okkur sneri. Í fyrsta lagi þurfti að ná endanlega samkomulagi við Bandaríkjamenn um það hvernig þessum málum skyldi varið til framtíðar og það að upphaflegi tvíhliða varnarsamningurinn gilti áfram o.s.frv. Það er því ekki hægt að tala um að öll þessi tólf ár sem þessir tveir flokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, unnu saman í ríkisstjórn hafi þetta viðfangsefni verið uppi á borðinu heldur fyrst og fremst eftir að ljóst varð að herinn var að fara og þá var náttúrlega strax farið að vinna að málinu.

Sú sem hér stendur var í tæplega eitt ár í utanríkisráðuneytinu. Auðvitað var ýmislegt gert og margt náðist fram. Það var þó ekki svo að við næðum öllu fram og kláruðum allt það verk sem beið okkar í framhaldi af því að herinn fór. Þess vegna kemur þetta frumvarp t.d. fyrst fram núna en ekki í minni tíð fyrir kosningar, sem hefði náttúrlega verið best.

Ég vil ekki gera allt of mikið úr því að afstaða til mála sé sú sama hjá núverandi ríkisstjórn en ég sé ekki betur en stefnan sé óbreytt eða lítið breytt og tel það mjög gott fyrir land og þjóð. Utanríkismál og varnar- og öryggismál eru þannig mál að mikilvægt er að ekki sé verið með mikinn hringlandahátt í þeim efnum. Ég veit því ekki hvað mundi gerast ef flokkur hv. þingmanns kæmist í ríkisstjórn, hvort gerð yrði krafa um að gera einhverjar miklar breytingar á öryggis- og varnarmálum Íslendinga. (Forseti hringir.) Ég trúi nú að það yrði ekki svo mikil breyting.