135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[16:15]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, staðfesti það, að mér fannst, sem ég hélt og mér heyrðist hv. þingmaður segja hér áðan um að ekki væru skörp skil á milli stefnu Framsóknarflokksins í fyrri ríkisstjórn og stefnu Samfylkingarinnar í þessari ríkisstjórn í þeim málum sem hér er verið að ræða um, þ.e. þessu frumvarpi um varnarmál, heldur hafi Samfylkingin hreinlega tekið við því verki sem hv. þingmaður sagðist ekki hafa klárað í sinni utanríkisráðherratíð.

Ég verð að segja eins og er, forseti, að ég er hálf hugsi yfir þessum yfirlýsingum á báða bóga hér, frá Samfylkingunni annars vegar og fulltrúum Framsóknarflokksins hins vegar, um hversu sammála þau hafa nú verið alla tíð og hve lítið hafi skilið þessa tvo flokka að í utanríkismálum undanfarin ár. Satt best að segja svona í undirmeðvitundinni minnist ég þess að hér hafi stundum slegið í brýnu á milli þessara tveggja flokka í þessum málum á undanförnum árum.

Ég get hins vegar fullyrt og fullvissað hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur um það að hefði stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs náð fram í lögum sem þessum hefðu þau verið með öðrum hætti en að þvæla landinu enn frekar inn í samstarf við hernaðarbandalagið NATO. Ætli það hafi ekki verið frekar áherslur um að setja hér lög sem til dæmis bönnuðu heræfingar á Íslandi og kæmu í veg fyrir það með öllum ráðum að Ísland yrði áfram virkur aðili í (Forseti hringir.) þessu hernaðarbandalagi?