135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

fiskeldi.

530. mál
[16:17]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fiskeldi á þskj. 831 sem er 530. mál. Þetta frumvarp er samið að frumkvæði fiskeldisnefndar sem starfar samkvæmt lögum nr. 57/2006, um eldi vatnafiska, og lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er stefnt að því að sameina í einn lagabálk ákvæði laga um eldi vatnafiska og eldi nytjastofna sjávar þar sem báðar þessar atvinnugreinar heyra nú undir sama ráðuneytið, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Forsaga þessa máls er nokkur og vegna samhengis tel ég rétt hér í upphafi að gera nokkra grein fyrir henni í stuttu máli.

Ákvæði laga um eldi ferskvatnsfiska hafa verið í gildi um áratugaskeið í lögum um lax- og silungsveiði og var þeim í upphafi sinnt af embætti veiðimálastjóra en gerðar voru á lögunum veigamiklar breytingar með lögum nr. 83/2001, um breytingu á IX. kafla laganna. Með lögum nr. 33/2002 voru síðan sett sérstök lög um eldi nytjastofna sjávar sem hafa gilt um þann hluta atvinnugreinarinnar frá þeim tíma.

Á árinu 2005 var starfsemi að því er varðar ferskvatnsfiskeldi flutt til Landbúnaðarstofnunar þegar embætti veiðimálastjóra og fleiri stofnana var sameinað í eina stofnun með lögum nr. 80/2005, sem tóku gildi 1. janúar 2006.

Á árinu 2006 fór síðan fram heildarendurskoðun á ákvæðum laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, og þá var sú leið farin að skipta efni þeirra upp og greina í fimm lagabálka, þ.e. lög um lax- og silungsveiði, lög um fiskrækt, lög um eldi vatnafiska, lög um varnir gegn fisksjúkdómum og lög um Veiðimálastofnun. Eldi vatnafiska heyrði á þeim tíma undir landbúnaðarráðuneytið og eldi nytjastofna sjávar undir sjávarútvegsráðuneytið og var því ekki unnt að sameina fiskeldi samkvæmt þeim lögum í einn lagabálk.

Með lögum nr. 109/2007, um breytingu á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, voru hins vegar gerðar breytingar á skipan ráðuneytanna þar sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti hafa nú verið sameinuð í eitt ráðuneyti.

Einnig voru gerðar nokkrar breytingar á skipan stjórnsýslu og eftirlits með fiskeldi með lögum nr. 167/2007, um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, þar sem Landbúnaðarstofnun var gefið nýtt nafn, Matvælastofnun, og öll stjórnsýsla matvælamála var flutt til þeirrar stofnunar, meðal annars öll stjórnsýsla að því er varðar fiskeldi. Fyrir gildistöku laganna féll eldi vatnafiska hins vegar undir eftirlit og starfsemi Landbúnaðarstofnunar sem fór með stjórnsýslu veiðimála ferskvatnsfiska og eldi nytjastofna sjávar undir eftirlit og starfsemi Fiskistofu.

Þar sem allt fiskeldi fellur nú undir sama ráðuneytið, þ.e. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og stjórnsýsla og eftirlit einnig að mestu leyti sömu stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun tel ég hins vegar á þessu tímamarki rétt að að leggja til að leitað verði leiða til að tryggja eftir því sem kostur er að sömu lög og stjórnvaldsreglur gildi um þessa atvinnugrein án tillits til þess hvort um sé að ræða eldi vatnafiska eða nytjastofna sjávar. Þetta frumvarp er lagt fram í þeim tilgangi. Verði frumvarp þetta að lögum verður síðan leitast við að samræma stjórnvaldsreglur á þessu sviði eins og kostur er.

Einnig eru önnur rök fyrir ákvæðum þessa frumvarps sem ég tel ástæðu til að nefna hér sérstaklega. Þau eru meðal annars að þær gerðir EES-samningsins sem varða fiskeldi og Ísland er skuldbundið til að fara eftir gera almennt ekki mun á hvort um sé að ræða eldi vatnafiska eða nytjastofna sjávar en í flestum tilvikum gilda sömu gerðirnar um þessa atvinnugrein. Á þeim tíma sem starfsemi fiskeldis féll undir tvö ráðuneyti samkvæmt framansögðu þurfti yfirleitt að innleiða þessar EES-gerðir af báðum ráðuneytum með aðskildum stjórnvaldsreglum fyrir hvora atvinnugrein. Með þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til verður hins vegar auðveldara að innleiða gerðirnar með sömu stjórnvaldsreglum fyrir allt fiskeldi.

Þá hafa áherslur breyst í starfsemi Matvælastofnunar eins og ég hef áður gert grein fyrir en stofnunin hefur fengið mjög aukin verkefni á sviði matvælaeftirlits samkvæmt framangreindum lögum nr. 167/2007, um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, meðal annars var með þeim flutt til Matvælastofnunar öll starfsemi á sviði matvælaeftirlits sem áður var hjá Fiskistofu og Umhverfisstofnun.

Með þessu frumvarpi er þess vegna lagt til jafnframt að allt fiskeldi verði nú flutt til Fiskistofu. Stjórnsýsla varðandi eldi á laxfiskum hefur verið innan málaflokks veiðimála ferskvatnsfiska í áratugi, bæði útgáfa rekstrarleyfa og einnig eftirlit um nokkurra ára skeið. Þessi verkefni voru eins og áður segir á hendi embættis veiðimálastjóra áður en það var sameinað fleiri stofnunum í Landbúnaðarstofnun á árinu 2005. Á sama hátt hefur útgáfa rekstrarleyfa og eftirlit með nytjastofnum sjávar verið á hendi Fiskistofu þar til þau verkefni voru flutt til Matvælastofnunar. Fiskistofa fer jafnframt með stjórnsýslu og eftirlit með nytjastofnum sjávar samkvæmt ýmsum öðrum lögum. Að teknu tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á starfsemi Matvælastofnunar tel ég að stjórnsýsla og eftirlit með fiskeldi eigi nú meira sameiginlegt með starfsemi Fiskistofu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að almennt eftirlit með fiskeldi verði hjá Fiskistofu og að sú stofnun fari með þá þætti í starfsemi fiskeldis sem lúta að útgáfu rekstrarleyfa, veiðistjórn ferskvatns- og sjávarfiska og stjórnsýslu um það efni ásamt eftirliti sem taki til rekstrarlegra og fiskeldislegra þátta. Áfram er þó gert ráð fyrir að Matvælastofnun fari með eftirlit með lögum og stjórnvaldsreglum sem lúta að matvælaeftirliti og heilbrigði eldisfiska.

Við samningu þessa frumvarps hefur verið ákveðið að leggja til grundvallar efnisskipan og helstu ákvæði laga nr. 57/2006 en gerðar hafa verið viðeigandi breytingar á efni þeirra til þess að ákvæðin geti einnig gilt um þá starfsemi sem byggð hefur verið á lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar. Einnig hafa verið gerðar nauðsynlegar lagfæringar á ákvæðum laganna vegna þeirra breytinga á fyrirkomulagi eftirlits sem er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi í för með sér. Þá er ekki gert ráð fyrir að fiskeldisnefnd starfi eftir gildistöku laganna en hún hefur hingað til verið eins konar samvinnuvettvangur um fiskeldi í ferskvatni og eldi nytjastofna sjávar sem áður heyrðu undir tvö ráðuneyti og fleiri stofnanir, eins og ég hef gert grein fyrir hér að framan. Eftir að báðir málaflokkarnir hafa nú verið fluttir undir eitt ráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, og að mestu leyti eina stjórnsýslustofnun er ekki talin lengur þörf á að hafa slíkan samvinnuvettvang. Ákvæði frumvarpsins fela að öðru leyti ekki í sér miklar breytingar á inntaki og framkvæmd stjórnsýslu og eftirlits með fiskeldi, að minnsta kosti ekki eldi vatnafiska, miðað við gildandi ákvæði og framkvæmd laga um það efni.

Samhliða þessu frumvarpi hef ég einnig lagt fyrir þingið frumvarp til laga um flutning stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði, fiskræktar o.fl. frá Matvælastofnun til Fiskistofu en þar er gert ráð fyrir því meðal annars að þeir starfsmenn Matvælastofnunar sem sinna þeim verkefnum flytjist til Fiskistofu. Gera má ráð fyrir að sömu starfsmenn sinni að einhverju eða öllu leyti þeirri starfsemi á sviði fiskeldis sem stefnt er að því að flytja til Fiskistofu með þessu frumvarpi. Að öðru leyti hefur verið leitast við að samræma efni þessara lagafrumvarpa eins og kostur er.

Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið og læt ég nægja að vísa í það. Einnig hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið aflað greinargerðar frá ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur um frumvarpið í samræmi við lög og stjórnvaldsreglur þar að lútandi. Vil ég að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frumvarpinu en þar er ítarlega gerð grein fyrir efni þess.

Virðulegi forseti. Frumvarpi þessu og einnig áðurnefndu frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði, fiskræktar o.fl. til Fiskistofu, er ætlað að tengja saman í einni stofnun alla veiðistjórnun, fiskeldisstjórnsýslu og eftirlit með nýtingu og eldi á nytjastofnum í sjó og fersku vatni. Það hefur lengi legið fyrir að ýmsar aðferðir við veiðar á nytjastofnum sjávar geta haft áhrif á afkomu laxfiska í sjó og komið hefur í ljós að afföll á laxi á meðan á sjávardvöl stendur hafa farið vaxandi. Því er brýnt að stórauka rannsóknir á lífsferli laxins í sjó og tengja þær rannsóknum á öðrum nytjastofnum og vistkerfi sjávar. Einnig er nauðsynlegt að allar reglugerðir, sem taka til fiskeldisstarfsemi og veiða á nytjastofnum sjávar, taki mið af göngutíma og gönguleiðum laxfiska. Verði frumvörp þessi að lögum verður auðveldara að ná þessum markmiðum.

Með frumvörpunum er jafnframt stefnt að því að einfalda og samræma stjórnsýslu og eftirlit á þeim sviðum sem um þau gilda. Ég vænti þess að öll starfsemi sem ákvæði þeirra gilda um verði mun skilvirkari og markvissari eftir þær lagabreytingar, sem hér eru lagðar til.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.