135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

fiskeldi.

530. mál
[16:51]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða mjög áhugavert mál sem vissulega getur markað okkur að talsverðu leyti nýja framtíð og nýja möguleika sem tengjast fiskeldinu og hvernig við eigum að standa að því svo að vel fari. Við það vil ég kannski akkúrat staldra í þessu máli, hæstv. forseti, þ.e. hvernig okkur ber að standa að eldinu til að koma í veg fyrir að það sem við aðhöfumst í náttúrunni með eldi og eldistilraunum og aðstöðu til eldis valdi ekki tjóni fyrir framtíðina. Þess vegna tel ég að sérstaklega þurfi að huga að því hvar eldisstöðvar eru settar niður. Það þarf að mínu viti, herra forseti, sérstaklega að huga að því að framkvæma rannsóknir á svæðinu, botni og lífríki viðkomandi fjarða sem venjulega eru notaðir fyrir þetta eldi því að menn setja þetta ekki niður af fenginni reynslu fyrir opnu hafi því að það eykur hættuna á tjóni og að missa frá sér þau dýr sem menn reyna að ala. Vegna legu okkar lands er heldur ekki hægt að setja niður eldiskvíar í sjó, svo dæmi sé tekið, í hverjum firði vegna þess að mjög margir firðir hér frjósa að vetrarlagi. Í stillum og kaldri tíð leggur heilu firðina eins og menn þekkja. Þess vegna er leitað að stöðum þar sem slíkt á sér ekki stað, þar sem svo hagar til í umhverfi fjarðanna að eitthvað geri það að verkum að rek- og lagnaðarís valdi ekki tjóni á viðkomandi kvíaeldi og svo framvegis. Þetta hafa menn lært af reynslunni þegar eldisstöðvum er valinn staður.

Það sem mér finnst hins vegar á vanta, hæstv. forseti, og spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra sérstaklega um í þessu máli er hvernig eigi að byggja upp betri rannsóknir á svæðunum þar sem eldi á að verða í miklum mæli áður en við hefjum þar eldi, með það að markmiði að vernda lífríki viðkomandi fjarða og raska því ekki með sérstöku tilliti til þess að við höfum breytilega stofna við strendur Íslands, til dæmis marga þorskstofna og svo stofnbrot. Mér vitanlega hafa ekki farið fram skipulegar rannsóknir á grunnsævinu við Ísland. Ég ætla bara að leyfa mér að fullyrða það, hæstv. forseti, að sáralítið sé vitað um grunnsævið við Ísland. Það hefur enginn sem ég hef spurt af vísindamönnum þessa lands á sviði sjávarrannsókna getað svarað til dæmis þeirri spurningu hvað einn fjörður af ellefu fjörðum Ísafjarðardjúps geti gefið af sér inn í lífríki svæðisins, hvað geti alist þar upp af seiðum og hvaðan þau komi og hvert þau fari, á hverju þau lifi, hvenær þau komi og hvenær þau fari miðað við hitafar og önnur ætisskilyrði. Öllum þessum undirstöðurannsóknum hefur bara einfaldlega ekki verið sinnt og við höfum ekki þekkinguna.

Ég hef margsinnis vakið máls á þessu og bent á að æskilegt væri að reyna að átta sig á því hvað ákveðin vistkerfi hér við landið í fjörðunum okkar gefa inn í framtíð stofnanna, uppbyggingu þeirra, viðhald og vöxt og hvaða áhættu við getum tekið í því sambandi. Ég hygg einnig að það sé löngu viðurkennd staðreynd sem fiskimenn hafa reyndar haldið fram í áratugi að við strendur Íslands séu margir stofnar og stofnbrot og það hefur nú verið viðurkennt af vísindamönnum að svo sé.

Þess vegna, hæstv. forseti, held ég að það geti verið varasamt að flytja seiði af einu svæði til eldis á öðru svæði og þess vegna þurfa menn að huga að því í framtíðinni að seiðaeldið fari fram úr stofnum sem eru að meginhluta fæddir og hafa alist upp í viðkomandi vistkerfi, ekki kannski endilega nákvæmlega í einum og sama firðinum en alla vega viðkomandi landshluta eða viðkomandi vistkerfi hvernig svo sem nákvæmlega á að skilgreina það.

Ef ég tek dæmi af svæði eins og Ísafjarðardjúpi þar sem stundað er talsvert þorskeldi og hefur að ég held gengið mjög þokkalega. Menn hafa lagt mikla fjármuni og vinnu í það að fylgjast með þorskeldinu og ná árangri við það. Það var vitað, hæstv. forseti, í áratugi vegna fyrri veiða okkar á rækju í fjörðum og flóum, í Ísafjarðardjúpi, Húnaflóa og Arnarfirði, svo dæmi sé tekið, að í þessum flóum og fjörðum ólst upp mikið af þorskseiðum. Það kom í ljós þegar menn voru alltaf að loka veiðisvæðunum vegna fjölda þorskseiðanna við rækjuveiðarnar þannig að það þurfti engar sérstakar vísbendingar um að seiðin voru þarna á ákveðnum tímum árs, stundum á mismunandi dýpi. Þessa sögu þekktu rækjusjómennirnir. Stundum neyddust menn til að loka öllu Ísafjarðardjúpi fyrir rækjuveiðum eingöngu vegna mikils magns af uppvaxandi seiðum. Hvaðan þau seiði komu nákvæmlega held ég að enginn geti fullyrt en vitað er að hrygning fer fram í utanverðu Ísafjarðardjúpi, á ákveðnum blettum undir Grænuhlíð og svo framvegis. Það er einnig vitað að gengið hefur þokkalega að veiða þessi seiði í september, október þegar þau byrja að leita botns í tiltölulega grunnu vatni og fara með þau í áframeldi, í strandeldi uppi á landi með stýrðu hitastigi, ná góðum árangri við að ala þau og færa þau síðan út í kvíarnar á vorin þegar þau hafa í raun náð að komast yfir fyrsta vaxtarskeiðið. Við þessar tilraunir hafa menn sýnt mikla hugkvæmni og eftirfylgni og hafa náð mjög markverðum árangri við að tryggja að stór hluti þessara seiða lifi af þennan fyrsta vetur. Er talið að þar séu menn í raun komnir langt fram úr náttúrunni þar sem talið er að aðeins örlítið brot seiðanna lifi af fyrsta veturinn í lífríkinu bæði vegna sjávarhita og afráns annarra tegunda, jafnt sjávarspendýra sem stærri fiska.

Ég lít svo á að þarna séum við á mjög áhugaverðri braut. Það er mjög eftirsóknarvert að þróa þessi mál áfram vegna þess að við erum að ýta undir það að ná meiri árangri en næst við eðlilegar aðstæður í náttúrunni við uppbyggingu og nýtingu fiskungviðisins sem verða mikil afföll af í náttúrunni á fyrsta vetri eldis. Einmitt þess vegna og vegna þess að við erum að nýta firðina og flóana þá skiptir verulegu máli, hæstv. forseti, þegar við förum að byggja upp þorskeldið af enn meiri krafti en við höfum gert hingað að vita hvað við erum að fást við. Þess vegna kalla ég á það, hæstv. forseti, að rannsóknir í innfjörðum, í flóum og fjörðum frá fjöruborði og út firðina að menn kortleggi þetta með miklu meiri nákvæmni og stundi miklu meiri rannsóknir á lífríki innfjarðanna — það sýnir sig að þar hafa verið uppeldisstöðvar fiskungviðisins í verulegum mæli — en verið hefur og alveg sérstaklega ef þeir ætla að hefja eldi í kannski hverjum firðinum á fætur öðrum.

Ég hef svo sem ekki séð nein sérstök slys verða við það eldi sem átt hefur sér stað í fjörðunum fyrir vestan eins og Álftafirði og Seyðisfirði svo að dæmi sé nefnt, þ.e. ekki svo að mér sé kunnugt. Það er ekki að sjá á umgengninni í fjörðunum að þetta valdi neinum skaða. Það kann bara að segja það einfaldlega að við höfum verið heppin hingað til. Ég legg á það mikla áherslu, hæstv. forseti, og vil gjarnan heyra hæstv. sjávarútvegsráðherra ræða um það áður en við tökum stór og mikil skref eða jafnvel risastökk í því að fjölga eldiskvíum vítt og breitt um landið í fjörðum og flóum, sem kann vissulega að vera mjög áhugaverður kostur, en þá vil ég fá svör við því hvernig við ætlum að standa okkur betur í því að rannsaka lífríkið til þess að vera viss um að við gerum ekki mistök. Það er allt of dýrt að læra eftir á, hæstv. forseti, þegar um er að ræða umgengni við náttúruna. Við verðum einfaldlega að efla þessar rannsóknir. Ég hef talað fyrir því í nokkur ár að efla verulega rannsóknir á grunnslóð. Sem betur fer eru að rísa starfsstöðvar úti um landið sem takast á við þetta, á Skagaströnd, við Breiðafjörð og vissulega í Ísafjarðardjúpi þar sem hefur verið rekið mikið og vaxandi fiskeldi með góðum árangri hingað til.

Þetta er fyrst og fremst það sem ég vil leggja inn í þetta mál. Ég tel að málið sé mjög áhugavert. Ég tel hins vegar að við þurfum að varast að gera líffræðileg mistök með því að vera ekki nógu athugul við að færa seiði á milli landshluta að óathuguðu máli. Það er ljóst að þeir stofnar og stofnbrot sem valið hafa sér ákveðna staði áratugum saman til að hrygna ár eftir ár gera það af einhverjum orsökum og hafa aðlagast viðkomandi svæðum. Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að taka seiði frá Stað í Grindavík, þar sem Hafrannsóknastofnun rekur nú seiðaeldisstöð og klakstöð, án þess að huga alveg sérstaklega að þessum stofngerðum og stofnbrotum. Það er ekki sjálfgefið að færa seiði milli landshluta og ala þau upp og sleppa þeim til eldis, sérstaklega með tilliti til þess að það sleppur alltaf eitthvað af seiðunum og það verða óhjákvæmilega alltaf einhver slys.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti, og bara í lokin til gamans vil ég segja að ég hef í mörg ár komið við í seiðaeldisstöðinni í Reykjanesi til að sjá hvernig þetta eldi fer fram og hef séð hvernig þeir sem þar hafa staðið að eldinu hafa gert mjög markverðar tilraunir sem skilað hafa árangri, meðal annars með hitastýringu beint í sjóinn með hveravatni án þess að hita sjóinn upp og eins varðandi fæðutilraunir. Ég hef líka séð að hegðun seiða frá Stað í Grindavík og seiða úr Ísafjarðardjúpi sem eru jafnstór en alin þar í aðskildum tönkum er mjög mismunandi. Ég veit ekki hvort ég á að leyfa mér að segja það en ég held að seiðin sum sem komu frá Stað í Grindavík hafi verið hálftaugaveikluð.