135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

flutningur stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði o.fl. til Fiskistofu.

531. mál
[17:13]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna frá Matvælastofnun til Fiskistofu, á þskj. 832, 531. mál. Frumvarpið er samið að mínu frumkvæði sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Með frumvarpinu er stefnt að því að flytja til Fiskistofu stjórnsýslu og eftirlitsverkefni á sviði lax- og silungsveiði, fiskræktar og önnur verkefni sem varða stjórnsýslu og eftirlit með ferskvatnsfiskum. Umrædd verkefni eru samkvæmt gildandi lögum á verksviði Matvælastofnunar. Nánar tiltekið er hér um að ræða verkefni samkvæmt eftirtöldum lögum:

1. lögum nr. 58/2006, um fiskrækt,

2. lögum nr. 59/2006, um Veiðimálastofnun,

3. lögum nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum, með síðari breytingum,

4. lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum,

5. lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun, með síðari breytingum og

6. lögum nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

Forsaga þessa máls er nokkur en vegna samhengis tel ég rétt hér í upphafi að gera nokkra grein fyrir henni í stuttu máli.

Fyrstu ákvæði um stjórn veiðimála ferskvatnsfiska hér á landi voru lögfest með setningu laga nr. 61/1932, um lax- og silungsveiði. Með þeim lögum var komið á fót embætti veiðimálastjóra sem þó varð ekki að fullu virkt fyrr en 1946 þegar fyrsti veiðimálastjórinn kom til starfa. Síðar voru gerðar nokkrar breytingar á lögum um embættið og starfsemi þess.

Á árinu 2005 var starfsemi embættis veiðimálastjóra og fleiri stofnana hins vegar sameinuð í eina stofnun, Landbúnaðarstofnun, með lögum nr. 80/2005, sem tóku gildi 1. janúar 2006.

Í árslok 2007 var nafni Landbúnaðarstofnunar síðan breytt í Matvælastofnun með lögum nr. 167/2007, um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, í kjölfar sameiningar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyta í eitt ráðuneyti. Með þessu varð töluverð áherslubreyting í starfi stofnunarinnar og fékk hún einnig mjög aukin verkefni með þeim lögum. Meðal annars var flutt til stofnunarinnar öll starfsemi á sviði matvælaeftirlits sem samkvæmt eldri lögum var hjá Fiskistofu og Umhverfisstofnun.

Stjórnsýsla og eftirlit í veiðimálum ferskvatnsfiska hér á landi hefur borið mikinn árangur eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu og telst vera til fyrirmyndar fyrir aðrar þjóðir og ástand laxa- og silungastofna og búsvæða þeirra með því besta sem gerist. Hefur þessum verkefnum jafnframt verið afar vel sinnt af Matvælastofnun og áður Landbúnaðarstofnun frá þeim tíma sem stofnunin tók við þeim. Fyrir flutningi þessara verkefna nú frá Matvælastofnun til Fiskistofu eru hins vegar margvísleg rök sem rakin eru í greinargerð með frumvarpinu.

Stofnun Landbúnaðarstofnunar á árinu 2005 var í raun útfærsla á tillögum um sameiningu allrar stjórnsýslu í landbúnaði sem fyrst komu fram í stjórnsýsluúttekt á árinu 1997 og var stefnt að því að starfsemi einstakra stofnana sem sameinuðust í starfsemi hennar yrðu tiltölulega sjálfstæð svið innan stofnunarinnar. Hér var því fyrst og fremst verið að huga að hagræðingu og eflingu stjórnsýslunnar.

Eftir að stofnunin hóf starfsemi sína varð hins vegar fljótlega ljóst að meginþungi þeirrar starfsemi yrði á sviði dýraheilbrigðis og eftirlits með aðföngum og matvælaframleiðslu enda hefur skipurit og skipting stofnunarinnar tekið mið af því. Einnig hefur komið í ljós frá þeim tíma að starfsemi í veiðimálum sem byggir á félagslegri uppbyggingu veiðifélaga ásamt nýtingarstjórnun og verndun á ferskvatnsumhverfi laxfiska á ekki margt sameiginlegt með öðrum þáttum í starfsemi stofnunarinnar og hefur því í raun verið skipt milli sviða hennar.

Sú breyting sem varð á heiti og starfsemi Landbúnaðarstofnunar í Matvælastofnun um síðustu áramót og ég hef áður gert grein fyrir var síðan bein afleiðing af sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyta og má reikna með að sú sameining geti haft frekari áhrif á skipulagningu undirstofnana þess ráðuneytis.

Þær miklu breytingar sem hafa orðið á starfsemi Matvælastofnunar með lögum nr. 167/2007, um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, eru megintilefni þess að ég hef ákveðið að hrinda í framkvæmd þeirri endurskoðun á starfsemi í veiðimálum ferskvatnsfiska sem lögð er til í þessu frumvarpi.

Í frumvarpinu er lagt til að öll starfsemi í veiðimálum ferskvatnsfiska samkvæmt þeim lögum sem breytt er með frumvarpinu verði flutt til Fiskistofu. Í sjávarútvegi hefur stjórnsýsla nytjastofna sjávar verið á hendi Fiskistofu sem framfylgir ýmsum lögum og reglugerðum þess málaflokks. Hún hefur einnig á hendi viðamikið veiðieftirlit um allt land. Stjórnsýsla veiðimála ferskvatnsfiska á margt sameiginlegt með þeirri grunnstarfsemi sem fram fer á Fiskistofu. Báðir þessir aðilar fara með stjórnsýslu sem byggist á íslenskum lögum og tengjast sjálfbærri nýtingu á fiskstofnum þótt mikill munur sé á nýtingarformi. Að teknu tilliti til þeirra breytinga sem hafa orðið á starfsemi Matvælastofnunar tel ég að stjórnsýsla og eftirlit með veiðimálum ferskvatnsfiska eigi nú meira sameiginlegt með starfsemi Fiskistofu. Þó er áfram gert ráð fyrir að Matvælastofnun fari með eftirlit samkvæmt þeim lögum sem lúta að matvælaeftirliti og heilbrigði eldisfiska.

Þótt mikill skyldleiki sé með ýmsum verkefnum í veiðimálum ferskvatnsfiska og verkefnum Fiskistofu hafa veiðimál ferskvatnsfiska að ýmsu leyti mikla sérstöðu og tryggja þarf réttmætar fjárveitingar til hinna ýmsu verkefna. Starfsemi þessi spannar víðtækt svið og fjölbreytileg verkefni sem flest tengjast starfsemi veiðifélaga á einn eða annan hátt. Formenn og einstaka aðilar veiðifélaga þurfa því að geta sótt í einn rann með margvísleg erindi. Einnig þurfa veiðifélög að geta treyst á hnitmiðaða upplýsingagjöf varðandi þau lög og reglugerðir sem í gildi eru og túlkun þeirra.

Til að tryggja samfellu, samræmingu og yfirsýn í öllum þessum málum er mikilvægt að þeim sé að mestu sinnt innan sama sviðs í þeirri stofnun sem fer með málaflokk veiðimála. Í frumvarpinu er því lögð á það áhersla að starfsemi tengd stjórnsýslu í þessum málaflokki verði rekin sem sjálfstætt svið innan Fiskistofu og jafnframt lagt til að forstöðumaður þess sviðs gegni starfsheitinu „veiðimálastjóri“. Gert er ráð fyrir að forstöðumaður eða sviðsstjóri veiðimálasviðs verði ráðinn af fiskistofustjóra og að hann heyri að öðru leyti undir fiskistofustjóra.

Við samningu frumvarpsins voru heitin veiðimálasvið og veiðimálastjóri talin rótgróin starfsheiti og falla vel að þeim verkefnum sem unnið er að á þessum sviðum. Ég vil hins vegar vekja athygli þingsins á því að eftir að frumvarpið var lagt fram hafa komið fram ábendingar um að þessi starfsheiti falli ekki nægilega vel að núverandi starfsskipulagi Fiskistofu. Ég legg því til að þingið, viðeigandi þingnefnd, taki til sérstakrar athugunar við meðferð málsins hvort ástæða sé til að breyta því ákvæði frumvarpsins sem kveður á um umrædd starfsheiti, t.d. þannig að í stað þess að hið nýja starfssvið verði nefnt veiðimálasvið verði það nefnt lax- og silungsveiðisvið.

Ákvæði frumvarpsins fela að öðru leyti ekki í sér miklar breytingar á inntaki eða framkvæmd stjórnsýslu og eftirlits á þeim sviðum sem það tekur til heldur er með frumvarpinu einungis verið að flytja frá einni ríkisstofnun til annarrar þá starfsemi á vegum hins opinbera sem í því felst, þ.e. frá Matvælastofnun til Fiskistofu.

Þá vek ég athygli á að í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að starfsmönnum sem ráðnir hafa verið hjá Matvælastofnun við þau verkefni sem miðað er við að flytjist til Fiskistofu samkvæmt frumvarpinu verði boðin sambærileg störf hjá síðarnefndu stofnuninni. Einnig er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að eignir þær sem runnu til Matvælastofnunar, áður Landbúnaðarstofnunar við stofnun hennar samkvæmt 6. gr. laga nr. 80/2005, renni nú til Fiskistofu.

Loks vek ég athygli á að í frumvarpinu er nýtt ákvæði sem ekki varðar með beinum hætti önnur ákvæði þess. Með því er gert ráð fyrir að Veiðimálastofnun verði veitt heimild til að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð. Er það gert til að styrkja stöðu stofnunarinnar og efla tengsl og samvinnu hennar við atvinnulífið, svo og til þess að stuðla að því að stofnunin fái sjálf arð af störfum sínum og geti nýtt hann til þeirra verka sem hún vinnur að á hverjum tíma. Svipuð ákvæði eru í ýmsum öðrum lögum um sambærilegar stofnanir, Matís og Hafrannsóknastofnun, svo dæmi séu tekin.

Samhliða frumvarpi þessu hef ég einnig lagt fyrir þingið frumvarp til laga um fiskeldi, sem ég mælti fyrir fyrr í dag, en með því er stefnt að því að samræma í ein lög ákvæði laga um eldi vatnafiska og einnig eldi nytjastofna sjávar þar sem báðar þessar atvinnugreinar heyra nú undir sama ráðuneyti.

Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn um frumvarpið og læt ég nægja að vísa þangað. Einnig hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið óskað eftir greinargerð ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um frumvarpið í samræmi við lög og stjórnvaldsreglur þar að lútandi. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frumvarpinu en þar er ítarlega gerð grein fyrir efni þess.

Virðulegi forseti. Frumvarpi þessu og einnig áðurnefndu frumvarpi til laga um fiskeldi, sem ég hef einnig lagt fyrir þingið og gert grein fyrir hér að framan, er ætlað að tengja saman í einni stofnun alla veiðistjórnun, fiskeldisstjórnsýslu, og eftirlit með nýtingu og eldi á nytjastofnum í sjó og fersku vatni. Lengi hefur legið fyrir að ýmsar aðferðir við veiðar á nytjastofnum sjávar geta haft áhrif á afkomu laxfiska í sjó og komið hefur í ljós að afföll hjá laxi á meðan á sjávardvöl stendur hafa farið vaxandi. Því er brýnt að stórauka rannsóknir á lífsferli laxins í sjó og tengja þær rannsóknum á öðrum nytjastofnum og vistkerfi sjávar. Einnig er nauðsynlegt að allar reglugerðir sem taka til veiða á nytjastofnum sjávar og fiskeldisstarfsemi taki mið af göngutíma og gönguleiðum laxfiska. Verði frumvörp þessi að lögum verður auðveldara að ná þessum markmiðum.

Með frumvörpunum er jafnframt stefnt að því að einfalda og samræma stjórnsýslu og eftirlit á þeim sviðum sem þau gilda um. Ég vænti þess að öll starfsemi sem ákvæði þeirra gilda um verði mun skilvirkari og markvissari eftir þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.