135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[17:23]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Fiskræktarsjóð, á þskj. 855.

Frumvarpi þessu er ætlað að marka stjórnsýslu Fiskræktarsjóðs skýran og nútímalegan ramma sem stuðlað getur að skilvirkri starfsemi hans. Verði frumvarpið að lögum mun sérstök fimm manna stjórn fara með málefni sjóðsins en Fiskistofa mun annast innheimtu gjalda í sjóðinn í umboði stjórnarinnar.

Í Fiskræktarsjóð greiða nú annars vegar veiðifélög landsins og hins vegar orkufyrirtæki sem hafa tekjur af nýtingu á orku í fallvötnum landsins. Með þessu frumvarpi er ráðgert að marka álagningu gjalds á veiðitekjur skýrari ramma en gert er í gildandi lögum. Með frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að aflétta álagningu gjalds á tekjur af sölu raforku. Þeim tekjumissi er sjóðurinn yrði fyrir vegna þessa er ráðgert að bæta honum upp með eingreiðslu úr ríkissjóði að fjárhæð 270 millj. kr. sem ætlað er að mynda eigið fé sjóðsins en arður af eigin fé sjóðsins kæmi til úthlutunar á hverju ári.

Álagning gjalds á tekjur af raforkusölu hefur sætt nokkurri gagnrýni sem ekki verður rakin hér til hlítar en gerð er nánari grein fyrir í athugasemdum við frumvarpið. Einkum hefur gagnrýnin beinst að því að álagningin sé óeðlileg. Í því sambandi hefur verið bent á að ekki sé innheimt sambærilegt gjald af tekjum af sölu á raforku sem framleidd er með gufuafli. Einnig hefur verið bent á að stærstu vatnsaflsvirkjanir í jökulfljótum hafi oft lítil sem engin áhrif á fiskigengd á meðan smærri virkjanir hafi eða geti haft mun meiri röskun í för með sér. Að auki geti álagning gjaldsins leitt til hærra raforkuverðs og samræmist illa meginreglum um skattlagningu fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Fiskræktarsjóður tók til starfa árið 1957 og hefur sjóðurinn haft að markmiði síðan að styrkja og efla fiskrækt í landinu, m.a. með seiðasleppingum, gerð fiskistiga og rannsóknum en hugtakið fiskrækt má í dag skilja með hliðsjón af lax- og silungsveiðilögum sem hvers konar aðgerðir sem skapa eða auka fisk í veiðivatni eða arð af því. Með frumvarpinu er ráðgert að Fiskræktarsjóður dragi úr eða hætti stuðningi við fiskeldi en í framkvæmd hefur stuðningur sjóðsins við fiskeldi verið óverulegur á síðustu árum.

Það er von mín að frumvarp þetta styrki og efli Fiskræktarsjóð en Íslendingar eiga mikilla hagsmuna að gæta af fiskrækt í ám og vötnum.

Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu og fylgiskjals með því sem hefur að geyma kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr.