135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[17:25]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er kominn kunningi sem ég hafði reyndar einhver afskipti af þegar ég var í iðnaðarráðuneytinu en mér var kunnugt um að þetta mál væri í ólestri og að finna þyrfti einhverja framtíðarlausn á því hvernig sjóðurinn mundi afla fjár. Það fyrirkomulag sem hefur verið, þ.e. 2% gjald af hreinum leigutekjum af veiði og svo 3‰ af vergum tekjum af sölu raforku, væri í raun ekki ástand sem gæti varað til framtíðar því eftir því sem virkjunum fjölgaði og þær urðu bæði á sviði vatnsafls og jarðvarma þá var komin þarna upp staða sem skerti samkeppnisstöðu jarðvarmavirkjana gagnvart vatnsaflsvirkjunum miðað við það að vatnsaflsvirkjanirnar greiddu til sjóðsins en ekki jarðvarmavirkjanir. Að því leyti til var orðið hálfgert vandræðamál að finna framtíðarlausn á þessu.

Ég vil lýsa ánægju með að hér er a.m.k. komin tillaga um það hvernig þetta skuli leyst. Ég skal svo sem ekki fullyrða að þetta sé alveg 100% leið eða alveg örugglega besta leiðin en mér finnst hún vera allrar skoðunar verð og hugsanlega ágæt. Ég vil fá smásvigrúm til að skoða málið betur í nefndinni og fjalla frekar um það og taka endanlega afstöðu til þess. En við fyrstu skoðun slær þetta mig ágætlega vegna þess að ég tel að það þurfi áfram að sinna þessu máli þannig að veiðiréttarhafar geti áfram treyst á þennan sjóð og fiskirækt sé áfram mikilvægt mál. Hér er í rauninni um landsbyggðarmál að ræða sem þarf að leysa.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um það en mun skoða það betur með jákvæðum huga í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.