135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[17:48]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vænghaf hv. þm. Guðna Ágústssonar er svo mikið að þegar hann hefur sig til flugs þá svífur hann víða. Og þegar framsóknarörninn lenti að síðustu eftir ræðu sína áðan þá var ég honum algjörlega sammála. Mér fannst sem hv. þingmaður væri svona að efna til þeirrar áttar að hann mundi hníga gegn þessu frumvarpi. En svo var ekki.

Ég var sammála svo að segja öllu því sem hv. þingmaður sagði. Ég tel að sjálfsögðu að hér sé að öðrum þræði um að ræða umhverfisverndarsjóð. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekkert að því að hið opinbera komi með þessum hætti að því að leysa ákveðna deilu til að tryggja þessum merka sjóði smurningsolíu til þess að ganga áfram inn í framtíðina. Hann hefur margt þarft verkið unnið. Og af því hv. þingmaður nefndi Jöklu áðan tel ég til dæmis að það sé algjörlega kjörið fyrir þennan sjóð að veita því atbeina að hægt verði að rækta hana upp við fyrsta tækifæri. Við höfum séð það að góðum mönnum sem hafa kunnáttu á því sviði hefur tekist að rækta upp fisklitlar ár meðal annars í kjördæmi hv. þingmanns.

En svo verð ég að segja að hv. þingmaður virðist ekki vera mjög vel að sér í gömlum munnmælum í sínu kjördæmi því það eru auðvitað ævaforn munnmæli fyrir því að það séu ekki til bara hverafuglar í hans góða kjördæmi heldur hverafiskar líka. Þó sú röksemdafærsla hv. þingmanns hafi í raun verið ákaflega elegant þá styðst hún ekki við fornar sögusagnir úr kjördæmi hv. þingmanns Og eins og ég hef nú þekkt hv. þingmann þá er hann sá þingmanna sem helst vill leita aftur og jafnvel aftur fyrir landnám stundum til þess að styðja sitt mál þannig að mér finnst að hann ætti að skoða sinn rann örlítið betur.

Að öðru leyti fagna ég því, af því ég er ákafur stuðningsmaður þessa frumvarps, að bæði hann og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir tala vel um þetta mál og telja sjálfsagt að skoða hvort það sé ekki til síns brúks (Forseti hringir.) þarflegt.