135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[17:54]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þúsund ár eru sem dagur ei meir, segir einhvers staðar, og sannarlega eru þúsund ár sem dagur ei meir og fljót að líða. Mig minnir að Davíð Oddsson, sem á sitt sumarhús í Rangárvallasýslu, hafi einhvern tímann sagt mér að það þætti sér undarlegt hvað Gissur Þorvaldsson frændi minn væri hataður Rangárvallasýslumegin en elskaður Árnessýslumegin. Hann var einn af Haukdælum og enn skiptast menn í hópa um Gissur Þorvaldsson sem fallinn er frá fyrir um það bil sjö öldum. Þetta á auðvitað við um okkar sögur. Þær eru okkur nærri þó þær séu farnar og fornar.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu og sannarlega er það svo að þó það sé ekki að koma efnahagslegt vor á Íslandi hjá þessari blessuðu ríkisstjórn sem hefur brugðist skyldum sínum þá blasir við að guð almáttugur er að senda sitt vor til okkar eina ferðina enn. Í morgun gekk ég um Gróttu eins og ég geri oft. Ég sá að álftin, hún Svandís Sigurgeirsdóttir, var komin á hreiðrið sitt á Bakkatjörn og með Svani bónda sínum farin að búa um hreiðrið sitt og ætlar áreiðanlega að eignast fimm unga eins og vant er. Tjaldurinn var kominn á golfvöllinn. Það var vor í lofti. Þess vegna er það náttúrlega brýnt að hugsa til þess að nú fara stangveiðimennirnir að búa sig undir sumarið og sína vertíð og þeir munu áreiðanlega, hvar sem þeir fara um landið, fagna því að þessi litli sjóður verður til áfram þó með öðrum hætti sé. Hann hefur komið þeim að liði til þess að geta fengist við tómstundagaman, íþrótt, list sem í sjálfu sér er engu lík. Það gerir alla menn að betri mönnum að vera úti (Forseti hringir.) í guðsgrænni náttúrunni við veiðivatn eða rennandi á (Forseti hringir.) að berjast við þann stóra.