135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[17:57]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá jákvæðu umræðu sem hefur farið fram um þetta frumvarp. Ég held að það sé nefnilega þannig að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafi átt kollgátuna þegar hún sagði að fyrirkomulagið sem hefur verið í gildi og er enn í gildi hafi verið í ólestri og að finna þyrfti á því frambúðarlausn. (Gripið fram í.) Ég held að það sé líka svo, eins og hv. þingmaður sagði, að þetta var ástand sem ekki gat varað til frambúðar. Hún orðaði það raunar svo að þetta hefði verið orðið vandræðamál. Út af fyrir sig ætla ég ekkert að tjá mig um það. Alla vega vitum við að þetta var mál sem við gátum ekki búið við. Þess vegna er það rétt sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði að málið hefur verið alllengi að þvælast fyrir mönnum án þess að það fyndist á því viðunandi lausn.

Ég held að það skipti öllu að við reynum að átta okkur á aðalatriði í þessu eins og öllu. Stóra málið var auðvitað það að við urðum að finna einhverja frambúðarlausn fyrir Fiskræktarsjóð, helst frambúðarlausn sem menn gætu sem flestir sætt sig við. Þessi niðurstaða hérna er akkúrat í samræmi við það. Þetta er frambúðarlausn sem tryggir stöðu Fiskræktarsjóðs alveg eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði og var svona að reyna að færa fyrir því nokkur rök að í raun væri sjóðurinn hugsanlega bara betur settur eftir þessar breytingar heldur en áður.

Í annan stað held ég að við getum ekki gert það að aðalatriði hvort þessi sjóður sæki sér tekjur í tekjustofna þá sem hann hefur búið við núna upp á síðkastið. Stóra málið er það sem ég veit að við erum flest sem hér höfum talað — ekki öll reyndar — sammála um, þ.e. að tryggja það að þessi sjóður eigi sér framtíð. Við vitum að hagsmunaaðilar sem hafa komið að þessu máli höfðu af því til dæmis miklar áhyggjur að ef niðurstaðan yrði sú að falla frá þeim tekjustofnum sem sjóðurinn hefði haft og setja hann algjörlega á fjárlög, þá yrði tekjugrundvöllur sjóðsins óljósari og óvissari og þess vegna væri mikilvægt að finna honum einhverja aðra lausn.

Lausnin sem við komumst að við undirbúning þessa máls var sú að útvega sjóðnum tiltekið fjármagn, 270 millj. kr. Það eru ekki fallbætur heldur er hér um að ræða eingreiðslu úr ríkissjóði sem gerir það að verkum að við stækkum efnahag sjóðsins sem gerir það aftur að verkum að hann á að geta ávaxtað sitt eigið fé og tryggt með því þá starfsemi sem honum er ætlað að sinna.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um þýðingu sjóðsins við rannsóknir og aðra þá starfsemi sem hann hefur sinnt. Hann hefur fyrst og fremst verið rannsóknarsjóður og á að vera það. En síðan hefur hann haft líka það hlutverk sem einnig skiptir máli, að stunda annars konar uppbyggingu í tengslum við laxveiðiár okkar og það er uppbygging á fiskvegum eða laxastigum og þess háttar sem gerir það að verkum að laxveiðiár okkar verði betri og aðgengilegri og skapi fleiri tækifæri og að því erum við að stefna. Rannsóknirnar hafa meðal annars þann tilgang að renna styrkari stoðum undir laxveiðina í landinu og það er verið að gera með þessum sjóði.

Það er misskilningur að stóriðjan í landinu hafi verið að borga í þennan sjóð. Þrjú orkufyrirtæki hafa greitt í sjóðinn, þ.e. Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun og Orkubú Vestfjarða. Hins vegar er þar sérstakt ákvæði sem felur í sér að stóriðjufyrirtækin bæði í Straumsvík og Grundartanga hafa verið undanþegin því að greiða í þetta þannig að aðrir notendur raforku hafa verið skattlagðir ef þannig mætti að orði komast til þess að standa straum af þessari greiðslu sem hefur runnið árvisst í gegnum tekjuöflun sjóðsins til Fiskræktarsjóðs. Straumsvík og Grundartangi hafa ekki verið meðal þeirra. Það er annað atvinnulíf. Almenningur í landinu hefur staðið undir þessu með þátttöku sinni í orkugreiðslunum. Núna erum við að hverfa frá því. Við erum hætt að leggja þetta gjald á orkufyrirtækin ef þetta verður að lögum og þar með má segja að verið sé að að létta þessu af almenningi í landinu og atvinnulífinu almennt í landinu og auðvitað skiptir það máli því við viljum að eitthvert jafnræði sé í þessum hlutum. Vitaskuld skiptir það máli.

Ég vek athygli á því að til er önnur raforkuframleiðsla með vatnsaflsvirkjunum í landinu en bara hjá þessum þremur fyrirtækjum. En það eru bara þessi þrjú fyrirtæki sem hafa verið undirorpin því að greiða í þennan sjóð.

Virðulegi forseti. Ég held að það geti ekki verið markmið í sjálfu sér að skattleggja orkufyrirtækin í þessu skyni. Aðalatriðið er það að tryggja að sjóðurinn sjálfur fái nægjanlegt fjármagn til að standa undir þeirri starfsemi sem honum er ætlað að sinna. Ég er alveg sammála því sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði. Þetta er ákveðin lausn á því. Ég var sjálfur þeirrar skoðunar að það kæmi ekki til greina að hverfa frá þeirri tekjuöflun sem sjóðurinn hefði haft nema að við fyndum honum varanlega frambúðarlausn og það er verið að gera með þessum lögum. Hann fær þarna verulega myndarlegt tannfé sem á að geta tryggt að hann geti síðan staðið undir sínum lögbundnu verkefnum sem kveðið er á um að öðru leyti í lögunum.

Hitt er auðvitað miklu stærri spurning sem við munum ekkert ræða hér og það er hin almenna skattlagning, önnur skattlagning á auðlindum eins og orkuauðlindum. Það er stór spurning sem oft hefur verið rædd. En það er ekki tilefni til þess að ræða það hérna. Það er auðlindagjaldsumræðan almennt og er það sérstakt mál.

Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, eingöngu segja að ég fagna þeirri jákvæðu umræðu sem hér hefur farið fram. Það er alveg rétt sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði. Það voru og hafa verið deildar meiningar um þennan sjóð og þess vegna er gott fyrir starfsemi sjóðsins að þær deilur eru nú settar niður með þessari niðurstöðu. Hagsmunaaðilar sem hafa komið að þessu, veiðiréttareigendur og aðrir slíkir eru prýðilega sáttir við þessa niðurstöðu enda sjá þeir þar með að búið er að tryggja sjóðnum varanlega stöðu til þess að sinna því mikilvæga verkefni sem honum er ætlað.

Virðulegi forseti. Með þessum orðum lýk ég þessari umræðu af minni hálfu og fagna þeirri góðu samstöðu sem mér sýnist að geti tekist um þetta mál.