135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:09]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra segir að það sem mestu skipti í sínum huga varðandi það mál sem hér liggur fyrir sé réttaröryggi, að viðkomandi umsækjendur um leyfi til rannsókna eða nýtingar á auðlindum í jörðu eða á hafsbotni geti vísað úrskurði Orkustofnunar, sem hér er lagt til að fái þetta leyfisveitingavald, til ráðherra.

Og ég spyr: Hverju sætir það, hæstv. ráðherra, að þessi kæra sem hér er um rædd skuli borin fram innan 30 daga frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun en að öðru leyti skuli fara samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga?

Nú er það svo samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að kærufrestur er þar tilgreindur með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.“

Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að lög mæli á annan veg.

Og ég spyr hverju þetta sætir vegna þess að þetta er allt annað en við höfum séð til að mynda varðandi flutning verkefna til landlæknis frá heilbrigðisráðuneyti og þetta er allt annað heldur en fram hefur komið í tveimur þeim frumvörpum áður um sama efni sem ég hyggst gera hér að umræðuefni í meginmáli mínu hér á eftir. Þar kom í báðum tilfellum fram á árinu 2004 og á árinu 2006 að um slíka kæru til ráðherra skyldu gilda venjuleg ákvæði stjórnsýslulaga. þ.e. 27. gr. um kærufrest.