135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:12]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var lóðið, ástæðan er sú að það þarf að flýta ferlinu. Og hvaða ferli skyldi það nú vera sem þarf að flýta? Ef litið er til greinargerðar með frumvarpinu þá segir um þetta, frú forseti:

„Fæst þá ekki eingöngu faglegri umsögn,“ þ.e. með þetta í höndum „heldur kann slíkt verkferli að auka málshraða við umsagnarferli samkvæmt lögum nr. 106/2000 ...“

Hvaða lög skyldu það vera? Það eru lögin um umhverfismat. Það á sem sagt að aðstoða framkvæmdaraðila, sem eru í þessum efnum raforkufyrirtækin og stóriðjan, til þess að hraða sér í gegnum umhverfismatsferli. Og þá veit maður það, frú forseti.

Annað sem ég óska eftir að gera athugasemd við hér í andsvari er umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem kemur fram að verði þetta frumvarp óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að vegna fjölgunar um eitt stöðugildi hjá Orkustofnun þá aukist útgjöld stofnunarinnar um 7–8 millj. kr. en ekki er gert ráð fyrir þeim útgjöldum í fjárveitingum gildandi fjárlaga. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því að þetta frumvarp, öðlist það samþykki, taki þegar gildi. Ég spyr: Hverju sætir það að verið er að stefna hér vísvitandi í 7–8 millj. kr. gat á reikningum Orkustofnunar?