135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:21]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það kemur fram í þessu frumvarpi að markmið þess sé að einfalda stjórnsýsluna, flýta fyrir og auðvelda afgreiðslu mála. Það ætlar ráðherra að gera með því að framselja leyfisveitingarvaldið sem hann hefur núna yfir til Orkustofnunar. Auðvitað eru kærur vegna stjórnvaldsaðgerða Orkustofnunar, eins og kemur fram, sendar til iðnaðarráðherra. Að sjálfsögðu, nema hvað. Ekki var ætlunin að það yrði neinn andmælaréttur við því.

En með þessu er ráðherra að flýta fyrir afgreiðslu mála sem m.a. eru nefnd í títtnefndri skýrslu um þjóðarbúskapinn sem fjármálaráðuneytið gaf út og sendi frá sér í dag þar sem fram kemur, með leyfi forseta, að margvíslegar stóriðjuframkvæmdir eru til skoðunar á Íslandi sem byggja á samstarfi fjölþjóðlegra fyrirtækja og innlendra orkuveitna. Öll þessi verkefni fara í gegnum flókið ferli á mati umhverfisáhrifa og annarra áhrifa áður en endanlegt leyfi til framkvæmda og starfsemi er veitt, segir þar.

Með þessu frumvarpi getur hæstv. ráðherra ekki neitað að skjóta sér undan því með beinum hætti að beita valdi sínu til að taka ákvarðanir í þeim málum en felur það öðrum, flýtir fyrir afgreiðslunni með því að búa til tæki til að komast undan ákvarðanatöku, eins og hæstv. umhverfisráðherra bar fyrir sig sömuleiðis.