135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:53]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er naumast að ræða mín hefur komið við kaunin á hæstv. iðnaðarráðherra sem telur hana ekki bara vitlausa heldur uppfulla af þekkingarleysi, að sú sem hér stendur skilji ekki neitt, hvorki í frumvarpinu né í þeim tveimur frumvörpum sem áður hefur verið hent hér út úr þinginu og voru þau þó skár úr garði gerð en það sem hæstv. ráðherra ber nú á borð fyrir okkur.

Hæstv. ráðherra talar um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð aki seglum eftir vindi. Ja, margur heldur mig sig. Ég vil skora á hæstv. ráðherra að eiga orðastað við þá sem hann hér geipar um, svo sem eins og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon (Gripið fram í.) sem svaraði honum og jarðaði hann í umræðu hér um nákvæmlega þetta sama um daginn.

Palladómar af þessum toga, hæstv. iðnaðarráðherra, eru ekkert voðaleg skemmtilegir. Það er til lítils og ber ekki vott um mikla stórmennsku að reyna að slökkva ljós annarra til þess að manns eigin týra lýsi svolítið betur. En ég skil að Samfylkingin þarf á því að halda núna, hún þarf svo sannarlega á því að halda núna, þegar hún kemur inn í þingið með eitthvað sem heitir Einfaldara Ísland til þess að greiða götu stóriðjustefnunnar, auðvelda mönnum að komast í gegnum umhverfismat, flýta ferlinu, taka lykkjuna af leiðinni o.s.frv. Samt segir ráðherrann að ekki standi til að veita nein rannsóknarleyfi og þetta snúist ekkert um það.

Þetta snýst um það að verði frumvarpið að lögum verður breytt einum fjórum, fimm greinum í lögum nr. 57/1998 og í það minnsta tveimur greinum í lögum nr. 73/1990, um auðlindir hafsbotnsins, í þá veru að ráðherra tekur ekki pólitíska ábyrgð á leyfisveitingum til rannsókna eða til nýtingar. Það verður gert úti í bæ, það verður gert í Orkustofnun.

Ég tel að ráðherranum væri sæmra að rifja upp eigin orð og gerðir heldur en að ráðast að fjarstöddum einstaklingum hér og endurtaka árásir sem löngu hafa verið hraktar. Hvernig væri að rifja upp Gjástykkismálið? Hvernig væri að rifja það upp að þegar hæstv. ráðherra, Össur Skarphéðinsson, kom að sínu ráðherraborði hafði tveimur dögum áður verið úthlutað rannsóknarleyfi í Gjástykki — í Gjástykki sem er sannarlega perla í íslenskri náttúru, er á skrá hjá Umhverfisstofnun og í náttúruverndaráætlun yfir svæði sem á að vernda að þeirra mati og svæði sem er algjörlega óraskað. Hæstv. iðnaðarráðherra hafði tækifæri til að afturkalla þetta rannsóknarleyfi. Nei, hann gat það ekki, það var búið að veita leyfið. Fyrrverandi hæstv. ráðherra hafði veitt leyfið tveim dögum fyrir kosningar og hæstv. ráðherra, Össur Skarphéðinsson, þorði ekki að breyta því.

Ég tel að hér sé Samfylkingin að hlaupast undan pólitískri ábyrgð. Það skiptir verulega miklu máli í auðlindanýtingu okkar, hvort sem er á hafsbotni eða á landi, hvernig umgengnin við landið er í rannsóknum og nýtingu. Ef menn þora ekki að setja fram pólitíska stefnu um það og standa við hana og bera ábyrgð á útgáfu leyfa í rannsóknum og öðru slíku — öðruvísi mér áður brá ef þessi hæstv. ráðherra þorir það ekki, en þetta frumvarp ber ekki vott um annað. Ráðherrann ætlar ekki að ómaka sig eða taka pólitíska ábyrgð á veitingum. Nei, ég er í ræðu, hæstv. ráðherra, og ræðutími minn er búinn. Ég tel sem sagt (Forseti hringir.) að ráðherrann sé að hlaupast undan merkjum og vísa frá sér ábyrgð sem aftur annar samflokksráðherra er að kveina undan að geta ekki beitt.