135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:58]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Menn geta barið hausnum eins lengi við steininn og þeir vilja. Staðreyndin er þessi: Allir sem ekki una úrskurði eða leyfisveitingum Orkustofnunar hafa lögbundinn rétt, ef frumvarpið verður að lögum, til að vísa úrskurðinum til iðnaðarráðuneytisins. Sá sem situr á þeirri stundu í stóli iðnaðarráðherra ber að sjálfsögðu pólitíska ábyrgð á þeim úrskurði, svo einfalt er það. Það þýðir að í hvert einasta skipti sem einhver er ósáttur við úrskurð, umsögn eða leyfi frá Orkustofnun, getur viðkomandi vísað því með rökum til iðnaðarráðherra og knúið hann til afstöðu, knúið hann til að bera ábyrgð.

Hins vegar eru í mörgum tilvikum gefin út leyfi sem ekki valda neinum ágreiningi, sem leiða ekki til neinna deilna, stór leyfi eða smá leyfi, allt eftir atvikum. Í því tilviki er fullkomlega eðlilegt að greiða för umsókna í gegnum kerfið, sé um að ræða mál sem er óumdeilt, og hefur verið lagt á allar þær mælistikur sem lögin leggja á slík mál. Niðurstaðan er úrskurður sem allir fella sig við. Þá er fyllilega verjanlegt að reyna að draga úr þeim tíma sem tekur að afgreiða slíkt. Þegar upp koma umdeild mál liggur það ljóst fyrir að ráðherra, hver sem hann er, verður að bera pólitíska ábyrgð á þeim úrskurði sem hann fellir gagnvart kærum, alveg eins og hæstv. umhverfisráðherra verður að bera pólitíska ábyrgð á þeim úrskurði sem hún felldi fyrir skömmu og hv. þingmenn sem hér hafa talað í dag, eins og hv. 8. þm. Norðausturkjördæmis, eru ósáttir við. Þar liggur hin pólitíska ábyrgð.

Ég rifjaði upp áðan að ákveðnum stjórntækjum hefði verið varpað fyrir róða. Þetta voru stjórntæki sem fólust í því að Alþingi varð að veita virkjunarleyfið og jafnframt að taka afstöðu til þess með hvaða hætti átti að nota virkjunina. Það var mikið vald sem Alþingi var gefið og leiddi til mikilla deilna. Ég tel að það hafi verið góð aðferð. Ég hef sagt það mörgum sinnum bæði áður en ég varð ráðherra og eftir að ég varð ráðherra. Því fylgdi líka að sá sem var iðnaðarráðherra hafði úrslitavald um orkusölusamninga. Mér er ekki kunnugt um að það hafi nokkurn tíma komið upp deilur í tengslum við það vegna þess að Alþingi var þá búið að ganga frá þeim málum.

Ég hef hins vegar lýst að ég hef sem iðnaðarráðherra reynt að stuðla að því að þessi ríkisstjórn taki sér í hendur stjórntæki sem tryggi að óraskaðri náttúru verði ekki spillt. Hún hefur gert það. (Gripið fram í.) Þessi ríkisstjórn hefur tekið sér í hendur stjórntæki sem leiða til þess að þær ákvarðanir sem hún tekur eða sem aðrir taka um framkvæmdir á meðan hún situr raska ekki svæðum sem eru ómetanleg að dómi Alþingis. Það er svo einfalt mál.

Þetta felst í fyrsta lagi í því að verið er að gera rammaáætlun sem á að liggja fyrir undir lok ársins 2009 og niðurstöðu þeirrar áætlunar verður ekki ráðið til lykta af neinu pólitísku framkvæmdarvaldi heldur Alþingi sjálfu. Hún verður lögð fyrir hið háa Alþingi þar sem allir geta rætt um hana. Það þýðir að þegar búið er að ganga frá þeirri áætlun liggur ljós fyrir vilji Alþingis til að taka frá svæði eða nýta svæði. Ég vek athygli á þeirri áherslubreytingu sem felst t.d. í að rammaáætlunin er ekki um nýtingu heldur um verndun og nýtingu með megináherslu á verndun.

Í öðru lagi, til þess að leggja áherslu á þetta — það er líka stjórntæki eins og ég rifjaði hér upp áðan — var öllum umsóknum um rannsóknarleyfi sem lágu fyrir hafnað. Ég lýsti því yfir sem iðnaðarráðherra að ég hygðist ekki veita nein rannsóknarleyfi á óröskuðum svæðum fyrr en þessi áætlun lægi fyrir. Til viðbótar var ákveðið að taka sérstaklega frá til verndar ýmis nafngreind viðkvæm svæði sem hv. þingmaður hefur m.a. barist fyrir að yrðu friðuð. Jökulsá á Fjöllum var felld undir Vatnajökulsþjóðgarð til þess að tryggja vernd hennar. Sömuleiðis var því lýst yfir að (Forseti hringir.) ekki yrði hreyft við Langasjó í virkjunarskyni.

Þetta eru stjórntæki sem vernda náttúruna.