135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir að taka þetta málefni upp því að það er svo sannarlega nauðsynlegt að fá úr því skorið hver stefna Samfylkingarinnar er gagnvart því að taka upp skólagjöld á háskólastigi hér á landi. En eins og hv. formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, sagði áðan nýtur það sívaxandi stuðnings innan Sjálfstæðisflokksins og reyndar víðar eins og hv. þingmaður sagði að taka upp skólagjöld við opinbera háskóla.

Það er rétt að minna á það, hæstv. forseti, að við framsóknarmenn höfum haft það á stefnuskránni að grunnnám við opinbera háskóla hér á landi eigi að vera óháð skólagjöldum. Við stóðum á bremsunni gagnvart samstarfsflokki okkar hvað þau mál áhrærir eins og við heyrðum áðan að tilhneiging er nú til innan Sjálfstæðisflokksins að taka upp skólagjöld við opinberu háskólana þvert á vilja stúdenta við þá háskóla og þvert á vilja þáverandi stjórnarandstöðu. Það eru því mikil vonbrigði að varaformaður menntamálanefndar Alþingis skuli ekki geta komið upp og sagt að það komi ekki til greina að taka upp skólagjöld við opinbera háskóla hér á landi þvert á það sem hann sagði þegar hann var í stjórnarandstöðu en eins og hv. þingmaður sagði áðan kemur ýmislegt til greina að skoða í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn og væntanlega þar á meðal að taka upp skólagjöld við opinbera háskóla.

Öðruvísi mér áður brá, hæstv. forseti, og það (Gripið fram í.) skyldi þó ekki vera þannig að nú geti Sjálfstæðisflokkurinn gert það með Samfylkingunni í menntamálum sem ekki var hægt með Framsóknarflokknum á sínum tíma, að nú eigi hugsanlega að innleiða skólagjöld við opinbera háskóla, a.m.k. útilokar hv. þingmaður það ekki hér. Það er áhyggjuefni og ég spyr: Hvers vegna hefur Samfylkingin gjörsamlega snúið stefnumálum sínum við í þessum málaflokki rétt níu mánuðum frá síðustu kosningum? (Forseti hringir.) Það er eðlilegt að hv. þm. Björn Valur Gíslason spyrji að því úr ræðustól Alþingis. (Gripið fram í: … í Skagafirði.)