135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:45]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er það bæði ljúft og skylt að taka þátt í þessari umræðu þar sem kallað hefur verið eftir viðhorfi Samfylkingarinnar til þessa máls. Ég get tekið undir með þeim góðu félögum mínum sem hér hafa talað áður, hv. varaformanni menntamálanefndar og hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, þau tóku skýrt fram hver stefna Samfylkingarinnar í málinu er.

Það er ljóst að enginn núningur er á milli stjórnarflokkanna að þessu leyti, enda kemur það fram í hinu ágæta frumvarpi menntamálaráðherra að ekki er gert ráð fyrir neinum nýjum skólagjaldaheimildum. Þessi umræða er að því leyti algjörlega ótímabær. Það sem Samfylkingin hefur sagt er algjörlega skýrt. Það er alveg ljóst að við viljum jafna samkeppnisstöðu skóla, um það þarf bara að ræða og fara yfir það mál.

Það er ljóst að mjög auðvelt er — eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sem kallar hér fram í af mikilli gleði, lenti í áðan — að lenda í mikilli mótsögn við sjálfan sig. Það er mjög auðvelt, hv. þingmaður, þegar menn fara að búa til of einfaldar formúleringar úr flóknum hlutum.

Það er líka sérstakt lærdómsefni að hlusta hér enn og aftur á belging Framsóknarflokksins sem virðist hafa verið í einhverri annarri ríkisstjórn en ég tók eftir á síðasta kjörtímabili. Í þessu máli sem öðrum halda framsóknarmenn tárbólgnar ræður um að þeir hafi staðið vörð um alls konar hluti sem þeir hafa ekki staðið neinn vörð um. (Gripið fram í.) Var Framsóknarflokkurinn ekki í síðustu ríkisstjórn sem kom á skólagjöldum á ýmsum sviðum, sem kom á skólagjöldum í Listaháskólanum, sem kom á skólagjöldum í tækninámi með sameiningu Tækniskólans og Háskólans í Reykjavík? Ætlar Framsóknarflokkurinn ekki að fara að kannast við verk sín í fyrri ríkisstjórn?

Framsóknarflokkurinn tjaldar því fram í gluggana sem hann vill á tyllidögum en kannast ekki við það sem hann gerir í þessum efnum.