135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:49]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það er ljóst að þessi umræða snertir viðkvæma strengi milli stjórnarflokkanna sem þó segja að enginn ágreiningur og enginn núningur sé neins staðar á milli þeirra í þessum skólagjaldamálum.

Ég skildi þó orð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar ekki á annan veg hér áðan en þann að hann væri hlynntur skólagjöldum og hann kemur hreint til dyranna. Hann má þó eiga það, og hans flokksfélagar allir, að þar eru línur nokkuð skýrar í þessu máli sem og mörgum öðrum — við vitum nokkurn veginn að hverju við göngum þegar að slíkum málum kemur, og þannig á það að vera.

Varaformaður menntamálanefndar, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, svaraði áðan þeirri spurningu minni hvort hann teldi að Samfylkingin mundi ljá máls á því að opinberum háskólum yrði veitt heimild til að innheimta skólagjöld. Hann sagði að það yrði bara að skoða fordómalaust. Við lítum á það mál að nýju að skoðum það fordómalaust. Gætti þá fordóma í stefnu Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar en fyrsta tillaga þeirra í menntamálum, hvað varðar menntastefnuna, er á þennan veg, með leyfi forseta:

„Samfylkingin vill stuðla að því að öllum standi til boða gjaldfrjáls menntun frá og með leikskóla til háskóla. … Tryggja að skólagjöld verði ekki tekin upp í almennu grunn- og framhaldsnámi við opinbera háskóla.“

Eru þetta þá fordómar? Vill hann kasta af sér þessum fordómum og fara að skoða málið fordómalaust frá öðrum hliðum? (Gripið fram í.)

Stefnan er skýr og ég hvet hv. þingmann til að nota rétt sinn til að tala héðan úr pontu og hætta þessu endalausa gjammi. Stefnan er skýr hjá Samfylkingunni. Hún liggur hér fyrir svört á hvítu en henni er ekki fylgt. Henni er greinilega ekki fylgt. Það gengur ekki upp að segja í einu orði að þau séu andsnúin (Forseti hringir.) opinberri gjaldtöku af opinberum háskólum en lýsa síðan yfir að þau vilji skoða það til grunna.