135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:56]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarni Harðarson beinir spurningum til mín um útgáfu lyfseðla, annars vegar um meðul Framsóknarflokksins og hins vegar Seðlabankans. Við ræddum vissulega ítarlega um lyfseðla Framsóknarflokksins þegar við fórum yfir fjárlögin og þær tillögur sem Framsóknarflokkurinn lagði fram í fjárlagagerðinni — flokkurinn lagði einnig fram ýmsar tillögur þegar niðurstaðan varðandi þorskkvótann var kunngerð, virðulegi forseti, menn muna eftir þeim tillögum sem þar voru.

Það má vel vera að það megi túlka það sem svo að Seðlabankinn sé einhvers konar frjálshyggjustofnun. Ég skal ekkert um það segja. Miðað við frjálshyggjuna eins og ég þekki hana sýnist mér nú Seðlabankinn ekki alltaf vinna í anda hennar, hann sé frekar aðhaldssamur og afturhaldssamur í nokkru varðandi reiknilíkön sín. Það má líka vel vera að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt sem svo að Seðlabankinn spái til öfganna beggja vegna við. En það er einfaldlega þannig að reiknilíkön Seðlabankans eru önnur en efnahagsskrifstofunnar og greiningardeilda bankanna.

Við höfum rætt fráviksspárnar og hvet ég, virðulegi forseti, alla til að kynna sér þær. Ef við tökum fráviksspárnar hjá þessum aðilum getum við heyrt þar samhljóm að ýmsu leyti.

En forsendurnar eru ólíkar í upplegginu í spálíkönunum og þess vegna heyrum við ekki hinn hreina samhljóm sem Framsóknarflokkurinn leitar að í þessu eins og í svo mörgu öðru. (Gripið fram í.)