135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

skaðabætur til fjölskyldna fórnarlamba í sprengjuárás gegn íslenskum friðargæsluliðum.

561. mál
[14:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að í Afganistan geisar hrikalegt stríð með öllum þeim geigvænlegu afleiðingum sem stríðsrekstur ævinlega hefur þar sem morð, pyndingar, nauðganir og hvers konar ofbeldi þrífst með ógnunum og hótunum í skjóli herstyrks og vígvæðingar. Nýlega greindu fjölmiðlar frá vændiskaupum NATO-manna í landinu sem setur ljótan blett á starf þeirra sem raunverulega vilja láta gott af sér leiða og magnar átökin, tortryggnina og hatrið milli ólíkra menningarheima og gerir öllu uppbyggingarstarfi og friðarviðleitni erfitt fyrir. Sjö ár eru liðin frá innrás Bandaríkjamanna í landið og enn bólar ekkert á því að friðvænlega horfi. Það fer engin friðargæsla fram þar sem enginn friður hefur komist á og það er sýn mín og margra annarra að við slíkar aðstæður eigi herlaus þjóð ekkert erindi inn á vígvöllinn.

Við Íslendingar höfum illu heilli þvælst inn í átökin í Afganistan með þátttöku okkar í NATO og óskiljanlegum áhuga íslenskra ráðamanna að taka þátt í stríðsleikjum stórvelda sem halda að þau geti tekist á við ógnanir hryðjuverka með hefðbundnum stríðsrekstri.

Í sjónvarpinu í gærkvöldi var viðtal við fréttakonu sem hefur starfað í Afganistan undanfarin ár og er ljóst af reynslu hennar og viðhorfum að þar hefur ekkert þokast í lýðræðisátt síðustu fjögur ár eða svo og hún heldur því fram að raunverulegri uppbyggingu samfélagsins sé ekki sinnt heldur einungis hernaðinum. Það liggur því ljóst fyrir að sú stefna sem rekin er í þessu stríðshrjáða landi er vægast sagt umdeild og getur allt eins haft öfug áhrif miðað við það sem ætlast er til þegar upp er staðið. Ef til vill má segja að afleiðingar stríðsátakanna í Afganistan og þátttaka okkar Íslendinga í þeim hafi orðið hvað áþreifanlegastar á haustdögum árið 2004 þegar íslenskir starfsmenn sem höfðu það hlutverk formlega a.m.k. að gæta friðar tóku sér fyrir hendur ferð til teppakaupa í svonefndu Kjúklingastræti í Kabúl. Sjálfsmorðssprengjuárás var gerð á íslensku starfsmennina sem hlutu lítils háttar meiðsl en því miður kostaði hún samt mannslíf, mannslíf sem eru ekki síður dýrmæt þeim sem misstu ástvini sína. Við slíkar aðstæður er að mínum dómi mikilvægt að sýna í verki samhug með þeim sem þjást, einkum þar sem þær þjáningar má beinlínis rekja til starfsemi Íslendinga á svæðinu. Ég hef leyft mér, frú forseti, að leggja fyrir hæstv. utanríkisráðherra svofellda fyrirspurn um skaðabætur til fjölskyldna fórnarlamba í sprengjuárás gegn íslenskum friðargæsluliðum:

Hefur íslenska ríkið greitt skaðabætur til fjölskyldna fórnarlambanna tveggja, 11 ára afganskrar stúlku og 23 ára bandarískrar konu, í sprengjuárás gegn íslensku friðargæsluliðunum í Kabúl árið 2004? Ef svo er, hversu háar voru skaðabæturnar og hvenær voru þær greiddar? Ef svo er ekki, hefur ráðherra í hyggju að sjá til þess að fjölskyldunum verði greiddar skaðabætur?