135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

skaðabætur til fjölskyldna fórnarlamba í sprengjuárás gegn íslenskum friðargæsluliðum.

561. mál
[14:15]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að gerast dómari um það hvort friðargæsluliðarnir sem fóru í teppakaup í Kjúklingastræti hafi ekki farið fram með gát og verið þar á stað sem þeir áttu ekki að vera. Við skulum láta það liggja á milli hluta. Það breytir ekki því að sjálfsmorðsárásin er á ábyrgð þess sem hana gerði. Sú ábyrgð verður aldrei frá þeim aðila tekin og færð yfir á annan. Hins vegar tel ég mjög mikilvægt að fara yfir málið heildstætt, skoða aðdraganda atburðarins, skoða viðbrögð á vettvangi, skoða hvernig haldið var á málinu af hálfu ráðuneytisins og fá heildstætt álit þessara ágætu einstaklinga á málinu. Þau munu væntanlega meta það og koma með tillögur um það ef þau telja ástæðu til þess að við bregðumst við með einhverjum hætti, með því að greiða skaðabætur eða eitthvað annað. Það er lagt algjörlega í þeirra hendur og ekki gefin fyrirskrift um það með hvaða hætti álit þeirra verður heldur er málið lagt opið í þeirra hendur og þau skila áliti. Ég geri ráð fyrir að kynna það fyrst fyrir utanríkismálanefnd og við getum síðan metið það í samstarfi, ráðuneytið og utanríkismálanefnd, hvernig haldið verður á framhaldi málsins.