135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

Fasteignamat ríkisins.

473. mál
[14:39]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er alfarið þeirrar skoðunar að ýta eigi undir að störfum hjá hinu opinbera á landsbyggðinni verði fjölgað og það er það sem þessi ríkisstjórn er að gera. Ef hv. þingmaður hefði fylgst töluvert með á síðustu missirum gerði hann sér grein fyrir því að það hefur t.d. verið að störfum Vestfjarðanefnd sem flokkur hv. þingmanns tók þátt í að hrinda af stokkum hér fyrir síðustu kosningar. Vegna hennar er verið að flytja tugi starfa til Vestfjarða. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa verið settar upp tvær nefndir, Norðvesturnefnd og Norðausturnefnd. Við höfum nú átt orðastað um það, ég og hv. þingmaður hér fyrr í sölum þingsins.

Þessar nefndir eiga að gegna svipuðu hlutverki og Vestfjarðanefndin. Þær eru að störfum á þessum mánuðum og eiga að skila niðurstöðum á komandi mánuðum fyrir sumarið. Þess er að vænta að einmitt þar sjái þess líka stað að verið er að freista þess að flytja opinber störf til landsbyggðarinnar. Ég gæti farið miklu víðar yfir sviðið.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru störf sem hafa horfið af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. (Forseti hringir.) En ég er þeirrar skoðunar, þessi ríkisstjórn er þeirrar skoðunar og veruleikinn talar sama máli að verið er að (Forseti hringir.) flytja störf til landsbyggðarinnar eins og föng eru til.