135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

Fasteignamat ríkisins.

473. mál
[14:43]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þetta mál snýst ekki um að einhver óánægja sé með starfsemi einstakra útibúa eða einhverjar athugasemdir við starfsemi eða afköst einstakra starfsmanna eins og hv. þingmenn hafa látið liggja að. Þessar breytingar eru vegna þess að orðið hefur eðlisbreyting á verkefnum stofnunarinnar. Það er m.a. vegna þeirra breytinga og stórverkefna sem ráðist var í að þróa, Landskrá fasteigna. Það leiðir til þess að verkefnin eru flutt frá Fasteignamatinu, frá ríkisstofnuninni til sveitarfélaga og til sýslumanna. Verkefnin eru eftir sem áður enn þá unnin á landsbyggðinni og reyndar miklu dreifðar og víðar en áður var.

Síðan er það uppbyggingin sem orðið hefur á Akureyri, í útibúi stofnunarinnar sem um er að ræða. Það er með engu móti hægt að halda því fram að þær breytingar sem gerðar hafa verið á Fasteignamati ríkisins hafi verið gerðar til þess að hafa störf af landsbyggðinni. Þvert á móti eru verkefnin unnin úti á landsbyggðinni í ríkari mæli en áður var og eru nú fleiri störf þar en áður þó að þau séu ekki alveg nákvæmlega á sömu stöðum og þau voru áður.