135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

[15:41]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Sjómenn og útgerðarmenn og þeir sem hafa starfað í sjávarútveginum hafa lengi efast um gildi togararallsins og allt frá upphafi, en það kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun að þetta sé 24. skiptið sem vorrall fer fram. Sjómenn hafa stundum sagt að þetta jafngilti því að ætla sér að beita svokallaðri 17. júní aðferð við manntal á Íslandi en það fer þannig fram að einu sinni á ári, þ.e. á 17. júní, er mannfjöldinn í miðbæ Reykjavíkur talinn og út frá því er reiknaður út mannfjöldi á Íslandi. Það fer síðan eftir veðurfari og tíðarfari hversu margir Íslendingar eru til samkvæmt þeim mælingum, þ.e. hve margir mæta í bæinn.

Það hefur nefnilega margt fleira áhrif á veiðarnar á fyrir fram ákveðnum þorskslóðum en eingöngu það hvort menn kasti þar og hafi fengið fisk fyrir 20 árum, 10 árum, 5 árum eða einum degi. Það kemur fram í þessari skýrslu að breyting á hitastigi veldur því m.a. að breyting er að verða á fiskgengd. Það er því fleira sem skiptir máli en menn vilja stundum vera láta í þessum togararallsmælingum.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði áðan um ýsuna að hún hefði verið gríðarlega sterk og þolað mikla veiði en hún væri ekki að hrynja. Við skulum þá vera minnug þess að þegar sjávarútvegsráðherra lagði til 30 þúsund tonna veiði í ýsu tvö ár í röð var ekki hlustað á það heldur var veitt 50% og stundum meira en ráðlagt var. Árin á eftir margfölduðust heimildirnar í ýsu. Það voru engin tengsl á milli veiðanna á ýsunni þá og heimildanna sem á eftir komu. Þessir sterku árgangar komu upp úr mikilli veiði sem þó var reynt að hamla og ef við hefðum farið eftir þeim ráðleggingum sem Hafrannsóknastofnun veitti (Forseti hringir.) í ýsuveiðum á þeim tíma værum við sennilega verr sett í dag.